152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alls ekki stefna okkar að fækka störfum í þessum greinum. Við viljum hins vegar smíða úrræðin þannig að þau gefi öllum sanngjarnt tækifæri og að menn standi jafnfætis öðrum, í sambærilegri stöðu, í aðgengi að úrræðum. En ég hef nefnt það hér í dag, í annarri umræðu sem var að klárast, að við þurfum að horfast í augu við það að við getum ekki leyst allan vanda allra. Það voru fyrirtæki, t.d. í ferðaþjónustu og ég tala nú ekki um í veitingageiranum, sem mögulega stóðu ekkert sérstaklega sterkt áður en heimsfaraldurinn skall á. Jafnvel þótt nú sé langt um liðið og einhver gæti sagt að það hljóti að vera þannig að öll fyrirtæki sem enn eru á lífi hafi staðið þokkalega á þeim tímapunkti þá held ég að þetta sé staðreynd. Það getur ekki verið markmið okkar, í mínum huga, að tryggja stuðning við fyrirtæki sem eru með undirliggjandi rekstrarvanda sem hefur ekkert með heimsfaraldurinn að gera.