152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ég held að það sé mjög viðkvæmt mál og mikilvægt að okkur takist að koma þessum úrræðum í gagnið og í framkvæmd sem fyrst. Ég fór ekki yfir það í löngu máli hér við þessa framsögu en ég hef nefnt það, þegar ég hef verið að kynna önnur úrræði sem við vorum að taka upp, t.d. veitingastyrkina eða lokunarstyrkina, að við höfum legið yfir því undanfarna mánuði hver af eldri úrræðunum við þyrftum að framlengja og hvað mætti renna sitt skeið. Við ræðum hér almennu viðspyrnustyrkina sem ég sá ekki fyrir mér að við vildum framlengja þegar ég mælti fyrir fjárlagafrumvarpinu. En það hefur margt breyst í millitíðinni. Þetta ómíkron-afbrigði hóf innreið sína og sóttvarnalæknir mælti með stórauknum takmörkunum sem heilbrigðisráðherra samþykkti eða leiddi inn í reglugerðir. Og þó að við séum aftur komin í það að létta á þeim takmörkunum hefur þetta haft gríðarlega mikil áhrif á marga. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að þetta úrræði sé komið fram aftur og við endurvekjum það í fjóra mánuði. Ég verð að taka undir með þeim sem segja að það skipti máli að koma þessu í gagnið sem fyrst. Það vekur mér líka vonir um að ágæt sátt geti tekist hér í þinginu um að ljúka málinu tiltölulega hratt.

Framkvæmdin fer hins vegar að langmestu leyti fram hjá Skattinum og ég get verið með mitt besta fólk í að fylgja því eftir að það gangi allt örugglega fyrir sig. En á endanum fer þetta vafalítið dálítið eftir umfanginu, hversu margir munu þurfa að sækja í úrræðið og hversu mikið álagið verður þar af leiðandi hjá Skattinum.

Örfá orð um gengisstöðugleika: Ég vil kannski byrja á því að segja að við erum með fyrirkomulag í gengismálum sem gengur út á það að við erum með opinn og frjálsan gjaldeyrismarkað. Það sem er ánægjulegt í augnablikinu er að það virðist vera að þjóðarbúið sé að framleiða það mikið af gjaldeyri að við séum bara í þokkalegu jafnvægi með gengismálin. Ef við skoðum viðskiptajöfnuðinn fyrir síðasta ár verð ég að segja að það fór kannski fram úr væntingum manns á tímabili hvernig úr því öllu spilaðist. Okkur hefur bæði tekist að sjá ákveðinn vöxt í komum ferðamanna en svo hafa margar útflutningsgreinar staðið mjög sterkt og stoðir hagkerfisins, sumar, reynst gríðarlega mikilvægar. Akkúrat þar sem við stöndum í þessari umræðu núna stendur yfir mjög kraftmikil loðnuvertíð sem mun skapa miklar útflutningstekjur. Það er ekkert sérstakt sem bendir til að eitthvert ójafnvægi sé á genginu og besta leiðin fyrir okkur til að tryggja að við höfum áfram efni á þeim lífsgæðum sem við höfum vanist, að við getum áfram sótt allt það sem við þurfum til annarra landa í gjaldeyrisviðskiptum, er að halda áfram að byggja undir útflutningsatvinnuvegina og tryggja að hér verði áfram til verðmæti í atvinnulífinu til að standa undir þessum lífsgæðum. Það er helst ef koma einhverjir brestir í það sem við eigum að þurfa að hafa áhyggjur. Ef eitthvað slíkt gerist, eins og gerðist t.d. í fjármálahruninu, að stoðir hagkerfisins bresta, það molnar undan gjaldeyrisöfluninni, verðmætasköpun í hagkerfinu, má hafa sterka skoðun á því hvað eigi að gerast næst. Að hvaða marki viljum við þá reyna að viðhalda, á veikum grunni, gengisstöðugleika og hvenær er langbest að horfast í augu við það að við þurfum að aðlagast nýjum veruleika? Ég held að með sjálfstæðri peningastefnu með okkar eigin gjaldmiðil þá höfum við tækifæri til að aðlagast hraðar að breyttum veruleika en margar aðrar þjóðir, sérstaklega þær sem taka þátt í myntbandalagi. Þannig getum við yfir lengri tíma betur tryggt forsendur lífsgæðanna og dreift áhrifunum af áföllum með sanngjarnari hætti. Ég myndi vilja segja það í þessu samhengi, fyrst gengismálin koma til umræðu, að ég held að það sé engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af genginu. Það er mikill kraftur í hagkerfinu og það á ekki að þurfa að vera með mikil afskipti, enda er Seðlabankinn með þá opinberu stefnu að vera ekki með afskipti af gengismálum eða gjaldeyrismálum nema einhvers skammtímaójafnvægis gæti. Að þessu leyti til held ég að við séum á ágætisstað. Mér sýnist að jafnvægisgengið sé einhvers staðar á þessum slóðum sem við sjáum og ef gengið færi að styrkjast mjög mikið myndi það gera þessum greinum sem hafa átt undir högg að sækja erfiðara fyrir. Það væri ekki gott mál.

Að þessu sögðu þá held ég að málið sé algjörlega tæmt af minni hálfu. Ég þakka fyrir ágætisumræðu hér.