152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[18:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Mig langaði aðeins að víkja aftur að framkvæmd efnahagsúrræða. Nú hefur komið fram fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að talsverðar tafir verði hjá Skattinum, m.a. vegna lögbundinna verkefna nú í febrúar sem lúta að gagnaskilum og undirbúningi fyrir álagningu opinberra gjalda. En svo er það líka þannig að stofnunin á fullt í fangi með að afgreiða ýmis önnur úrræði, m.a. Allir vinna úrræðið sem samþykkt var í desember að framlengja, en ráðuneyti hæstv. ráðherra hafði eindregið varað við því að það yrði gert. Í minnisblaði ráðuneytisins var einmitt bent á að þetta gæti kallað á aukna vinnu hjá Skattinum og tafið ýmsa aðra starfsemi Skattsins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sé kunnugt um að afgreiðsla slíkra umsókna, sú handavinna sem það úrræði kallar á, sé jafnvel að tefja fyrir því að fyrirtæki sem berjast í bökkum fái nauðsynlega aðstoð vegna tekjufalls sem stafar bæði af veirunni sjálfri og þeim sóttvarnatakmörkunum sem hér hafa verið lagðar á.