Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fjalla aðeins um eitt af mínum helstu hugðarefnum, sem eru geðheilbrigðismál. Nú hef ég haft áhuga á málaflokknum af ýmsum persónulegum ástæðum um áraraðir, hef setið í stjórn Geðhjálpar og naut þess heiðurs að vinna nýverið í rúm tvö ár hjá geðheilsuteymi á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er eitt af því góða sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kom til leiðar á síðasta kjörtímabili. Ég get alveg fullyrt að þarna er verið að koma til móts við mikla þörf og að þarna þurfi jafnvel að gefa enn betur í, ekki síst út af Covid-faraldrinum sem hefur ómæld áhrif á geðheilsu okkar allra eins og öll mikil áföll gera óhjákvæmilega.

Þegar rætt er um útgjöld til þessa málaflokks verður að hafa í huga þann ómælda kostnað sem hlýst af því að spara. Vandinn er einmitt nákvæmlega sá að skaðinn er oft bókstaflega ómældur, ekki mældur, og hættan er sú að það sem er ekki mælt skili sér hreinlega ekki inn í ákvarðanatöku. En það að eitthvað sé ekki mælt þýðir ekki endilega að það sé ekki til. Það þarf bara að hafa augun opin fyrir heildarmyndinni. Tökum t.d. umræðuna sem nú hefur galopnast um kynferðisofbeldi og áhrif þess. Þar erum við fyrst og fremst að tala um geðheilbrigði, ofbeldi sem veldur áföllum sem skaða geðheilsu fólks. Rannsóknir sýna skýrt þann skaða sem slíkt getur valdið fólki út allt lífið ef það fær ekki viðeigandi aðstoð.

Geðheilbrigðismál eru ekki eitthvað eitt, þau eru eiginlega alls staðar. Ég hvet þingheim til að hafa það í huga.