Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur oft talað um hversu mikilvægur kaupmáttur er í samanburði og hvernig hann hefur þróast. Nú eru stóru tölurnar á undanförnum árum þær, frá hruni 2009, að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 40%. Landsframleiðsla hefur aukist um 7%, en árið 2020 er skrýtið ár þannig að ef við miðum við 2019 eru það 17%. Ef við skoðum hvernig ráðstöfunartekjur hafa þróast síðan þá með tilliti til vísitölu neysluverðs þá hafa hóparnir sem eru á lægstu laununum, á lágmarkslaunum, þriðja og fjórða tekjutíundin, nokkurn veginn haldið í við þróun vísitölu landsframleiðslu, um 15–17%, eitthvað svoleiðis, sem það hefur hækkað. Hærri tekjuhópar hafa ekki hækkað eins mikið, þeir hafa hækkað minna eða í kringum 8–9%, níunda eða tíunda tekjutíundin. Það er áhugavert. Ef við skoðum skuldirnar þá hafa skuldir þeirra sem eru á lágmarkslaunum lækkað þó nokkuð mikið í rauninni, um helming eða svo, og skuldir þeirra sem eru hvað hæst launaðir hafa líka lækkað, ekki eins mikið þó, um 14–15%. Þá spyr maður sig: Hvert hefur eiginlega þessi landsframleiðsla farið ef hún hefur skilað sínum hluta til þeirra lægst launuðu en ekki til þeirra hæst launuðu? Hvar er landsframleiðslan? Svarið er: Í eignunum. Eignir þeirra sem eru á lægstu laununum hafa dregist saman á meðan eignir þeirra sem eiga mest hafa aukist, um 26–28%. Þar eru stóru tölurnar. Þar erum við að tala um fólk eða fjölskyldur sem eru með 90 milljónir í eign. (Forseti hringir.) Þar eru stóru tölurnar yfir það hvert auðurinn hefur farið á undanförnum rúmum áratug.