152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hvað getum við gert betur í kjölfar náttúruhamfara? Í desember lagði ég ásamt fleirum fram tillögu um að ríkisstjórninni verði falið að láta gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmiðið er að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingavernd og úrvinnslunni og finna leiðir til úrbóta. Nú hafa borist umsagnir um málið og er skemmst frá því að segja að þar er tekið undir tillöguna og hvatt til þess að farið verði í úttektina. Í umsögnum er m.a. bent á að í gildandi lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands er vátryggingaverndin bundin við fyrirframskilgreinda atburði, jarðskjálfta, eldgos, skriðuföll, snjóflóð og sjávarflóð. Komið hafa fram ábendingar um að eðlilegt væri að meta t.d. hvort öskufok eða annað fok í kjölfar náttúruhamfara félli undir trygginguna og sama er að segja um skógar-, kjarr- og sinuelda sem eru vaxandi ógn. Starfsemi Bjargráðasjóðs hefur dregist mjög saman frá 2009 eftir að sveitarfélög hættu inngreiðslum sem og Bændasamtökin þegar innheimtu búnaðargjalds var hætt. Bent er á að ráðast þurfi í úttektina í ljósi þeirra breytinga og samspils við aðra tryggingavernd og nýleg áföll. Frá Flateyri og Seyðisfirði koma réttmætar ábendingar um að ef atvinnulíf eigi að þrífast í þeim byggðarlögum sem standa frammi fyrir náttúruvá sé áherslubreytinga þörf varðandi varnir atvinnuhúsnæðis og tjónabætur. Hvað er samfélag án atvinnutækja eftir stórfellt eignatjón og rekstrarstöðvun? Getum við e.t.v. yfirfært eitthvað af reynslunni af stuðningi við atvinnulífið í gegnum Covid-faraldurinn og einstök samfélög þar sem atvinnulífið stöðvast í kjölfar náttúruhamfara?

Ég vil hvetja hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd til að taka málið og umsagnirnar til skoðunar.