Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þá vinnu sem átt hefur sér stað varðandi þetta mál og nauðsyn þess að afgreiða það á þessum tímapunkti. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að ekki sé tímabært að gera ýmsa réttarbót þar sem heildarendurskoðun á fjarskiptalögum sé á næsta leiti, komi líkast til inn í þingið í lok þessa mánaðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í það hvort rétt sé að frumvarpið sé á leiðinni af því að ekkert hefur sést til þess í samráðsgátt, en samkvæmt lögum ber að birta það og veita umsagnarfrest í að minnsta kosti tvær vikur. Þá vil ég spyrja hv. þingmann út í það hvers vegna ekki var tekið tillit til mjög afdráttarlausrar umsagnar Samkeppniseftirlitsins um nauðsyn þess að Fjarskiptastofa fái heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna lögbrota fjarskiptafyrirtækja. Umrætt ákvæði er tekið út úr frumvarpinu vegna kvartana fjarskiptafyrirtækja en ekkert er gert með þessa mjög svo skýru umsögn Samkeppniseftirlitsins sem segir þetta algjörlega nauðsynlegt til heilla fyrir neytendur, allan almenning í landinu. Ég vil spyrja hv. þingmann að þessu í fyrra andsvari.