Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[15:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, gaman að heyra að við hv. þingmaður séum báðir álíka spenntir fyrir möguleikunum sem eru í uppbyggingu á ljósleiðarakerfi hringinn í kringum landið. Það er hárrétt sem þingmaðurinn segir að það þarf ofboðslega lítið til að ná fram miklum samfélagslegum ábata í þessu og er í rauninni umhugsunarefni hvort t.d. rekstrarform Mílu hafi orðið þess valdandi að hamla uppbyggingu. Það kom t.d. fram í viðtali við einn af forsvarsmönnum Símans að þau bjuggust við því að það yrði jafnvel byggt hraðar upp undir nýju eignarhaldi vegna þess að Símasamstæðan gæti ekki sett jafn mikinn pening inn í uppbyggingu innviða á hverju ári eins og erlendi aðilinn bara vegna þess sem þau þurfa að standa straum af gagnvart hluthöfum.

Spurningin er hvort þetta sýni okkur að aðkoma ríkisins í gegnum fjarskiptasjóð t.d. hefði getað skilað meiru á síðustu árum. Eftir stendur svo spurningin með öll litlu svæðisnetin sem fylgja Mílu sem hafa oft verið byggð upp af nærsamfélaginu, litlum sveitum sem hafa ekki ratað nógu ofarlega á forgangslistann þegar kemur að uppbyggingu og eru vistuð innan Mílu. Það er spurning hvort við getum tryggt þær kvaðir nógu vel eða hvort við þurfum að halda áfram, kannski í gegnum eitthvert samstarf þeirra aðila sem eru að leggja hinn hringinn, hvort við getum séð til þess að það verði örugglega uppbygging á (Forseti hringir.) mjög dreifbýlum svæðum, líka þeim sem svara ekki ströngum fjárhagslegum kostnaði í reikningsskilum til hluthafa en gera það til samfélagsins.