Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[15:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Kannski bara örfá orð rétt að lokum. Ég held að það sem við þurfum að skoða í umhverfis- og samgöngunefnd, sérstaklega varðandi þá uppbyggingu sem er fram undan hjá öðrum en Mílu á næstu árum, sé hvort reynslan af rekstri Mílu á síðustu árum sýni okkur mögulega að það að hafa uppbyggingu grunnkerfis fjarskipta í höndum aðila á markaði setji uppbygginguna kannski í ákveðna spennitreyju. Að hreinar og berar markaðsforsendur séu ekki alltaf það sem hentar, sérstaklega í tilviki eins og þessu þar sem við getum nefnt hvert litla þéttbýlið á fætur öðru og alveg upp í stór þéttbýli eins og Vestmannaeyjar og allt dreifbýlið, alla sveitabæi sem eru ótengdir og illa tengdir og bara í miklum vandræðum með það að geti einu sinni tengst Mentor fyrir krakkana sína eða einkabanka til að gera upp reikninga í lok mánaðar. Uppbygging ljósleiðarakerfis er nefnilega eitthvað sem okkur finnst kannski ætti að geta gerst bara svona einn, tveir og þrír, að við ættum að geta gert bara tveggja ára þjóðarátak og þá væri bara allt landið ljóstengt. En það hefur ekki verið reyndin. Eftir þá umræðu sem hefur orðið og sérstaklega það sem kom fram frá fráfarandi eigendum Mílu þá grunar mig að hluti af ástæðunni sé að bara venjulegt fyrirtæki á markaði sé ekki það form sem getur reddað svona (Forseti hringir.) samfélagslegu verkefni á jafn stuttum tíma og við vildum sem sitjum hér í þessum sal og metum hlutina ekki út frá krónum og aurum (Forseti hringir.) heldur samfélagslegu verðmæti líka.