Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Í landi tækifæranna hækkuðu stýrivextir um 0,75%. Hvað þýðir það fyrir fólkið í landinu? Jú, áfall fyrir þá sem nú þegar eru í vanda, sem nú þegar eru að ströggla, sem nú þegar hafa þurft að taka þátt í þessum heimsfaraldri með okkur, með öllu því sem tilheyrir, hækkandi vöruverði — allt fer hækkandi — og brjálæðislegum húsnæðismarkaði sem enginn botnar í.

0,75% hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands, virðulegi forseti, er í raun allt of mikið. Það mætti stíga aðeins varfærnara skref. Mér þætti vænt um að vita hvort hinn ágæti seðlabankastjóri gæti svarað þessu: Hvað vakir fyrir Seðlabanka sem heldur krónunni niðri eins og mögulegt er og kemur með öllum ráðum í veg fyrir að hún fái að styrkjast þannig að almenningur og Íslendingar geti notið sterkari krónu og tekist á við síhækkandi vöruverð innflutnings?

0,75% hækkun stýrivaxta Seðlabankans, virðulegi forseti, lýsir ekki því sem hér hefur verið nefnt, í fyrri kosningabaráttu, „land tækifæranna“. Ef þetta er land tækifæranna er kannski eins gott að fara að pakka niður eins og svo margir hafa gert; þeir sem hafa kosið með fótunum og reynt að koma sér eitthvað annað.

Er það virkilega þannig, virðulegi forseti, að það á að fara að leggja það á skuldsett heimili landsins að taka enn eina holskefluna á sig? Í landi tækifæranna hlýtur það að vera algjört grundvallarskilyrði að ríkisstjórnin bregðist við með mótvægisaðgerðum þannig að þeir sem eru með breytilega vexti og þeir sem eru að fara að taka skellinn, þeir sem þurfa að horfa upp á tugþúsunda hækkun á mánuði af húsnæðislánum sínum — að þeim verði ekki fleygt út á guð og gaddinn, eins og var hér eftir efnahagshrunið 2008 þegar hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín.

Ég vona bara, virðulegi forseti, að það sé a.m.k. ekki það land tækifæranna sem hér var verið að boða fyrir síðustu kosningar.