Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Í gær gaf heilbrigðisráðuneytið út þá gleðifrétt að þau hjá Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, séu farin að geta boðið skjólstæðingum sínum upp á naloxone. Naloxone er nefúðalyf sem getur bjargað lífi fólks sem lendir í því að taka of stóran skammt af ópíóíðalyfjum. Það er jákvætt að sjá heilbrigðisráðuneytið vekja athygli á þessu og tala með skýrum hætti fyrir skaðaminnkun. En staðreyndin er engu að síður sú, eins og fram kom í frétt Fréttablaðsins um málið í síðustu viku, að það er ekki ríkið sem fjármagnar þetta heldur fjársterkir einkaaðilar. Starfsemi Frú Ragnheiðar hefur öll frá upphafi verið fjármögnuð fyrst og fremst með frjálsum framlögum, þótt ríki og Reykjavíkurborg hafi líka lagt til einhverja styrki. Þetta framtak sem bjargar mannslífum er sem sé háð því að það náist að fjármagna það utan opinbera kerfisins. Það er líka mikið til Frú Ragnheiði að þakka að viðhorfin bæði í pólitíkinni og meðal almennings til skaðaminnkunar eru orðin jafn jákvæð og raun ber vitni. Aðrir elta Frú Ragnheiði og vilja vera með, alla vega í orði. Nú finnst mér samt orðið alveg tímabært að hið opinbera fari að huga að því að stíga fastar inn með fjármögnun á lífsbjargandi þjónustu af þessu tagi í stað þess að reiða sig stöðugt á frumkvæði sjálfboðaliða. Þetta starf er löngu búið að sanna sig og nú má alveg fara að festa það betur í sessi. Það mætti t.d. huga að þessu samhliða vinnu við að lögleiða neyslu vímuefna, sem ég vona að sjálfsögðu að þinginu auðnist að klára mynduglega á þessu kjörtímabili.