Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[15:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að bregðast vel við og taka hér umræðu um innlenda matvælaframleiðslu. Innlend matvælaframleiðsla er nú ansi stórt hugtak og til að kjarna umræðuna lagði ég megináherslu á þrjár spurningar.

Fyrsta spurningin snýr að afurðastöðvum í kjötiðnaði. Á síðasta kjörtímabili fór fram vinna á vegum fyrrverandi landbúnaðarráðherra um endurskoðun á rekstrarskilyrðum landbúnaðarins. Komið hefur fram að innlend kjötframleiðsla hefur undanfarin misseri átt í harðri samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hérlendis. Ég tel nauðsynlegt að koma til móts við innlenda framleiðendur þannig að afurðastöðvar í kjötiðnaði fái undanþágu frá 71. gr. búvörulaga. Við höfum fordæmi fyrir því að gera þetta. Þar er er ég að tala um mjólkuriðnaðinn og við þekkjum ágætlega hvernig til tókst í þeim málum. Það eru 17 ár síðan þessi leið var farin þar og má með sanni segja að það hafi, held ég bara, tekist ágætlega til. Ákveðin hagræðing hefur átt sér þar stað. Fyrirtækið hefur jú vissa vernd, bæði í tollum og öðru, en það hefur líka ríkar skyldur gagnvart markaðnum. Það hefur líka ákveðnar skyldur gagnvart frumframleiðendunum, þ.e. bændunum í þessu samhengi. Ég leyfi mér að fullyrða að þar getum við sagt að bændur í þeirri grein hafi afkomu. Það sem við fjöllum um í þessum lið og snýr að kjötframleiðslunni er staðan allt önnur. Þar er gríðarlega hörð samkeppni á markaði. Við vitum það og þekkjum öll sem höfum fylgst með umræðunni að staða í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega snúin, svo vægt sé til orða tekið, og þar þurfum við að bregðast við. Ein af þeim leiðum er sú sem hér er nefnd í þessu samhengi og snýr að undanþágunni frá 71. gr. búvörulaga og að heimilt verði að fara þar í svipaða vegferð og í mjólkurframleiðslunni. Það hafa verið unnar ýmsar greiningar á því hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Síðast var unnin greining af fyrrverandi ráðherra sem kom út á síðasta ári, ég held að Deloitte hafi unnið þá greiningu. Þar er verið að tala um allt að 1,5 milljarða. Þá er bara verið að tala um sauðfjárræktina og nautgripaframleiðsluna. Síðan eru svo sem til aðrar greiningar á því. Ef við tækjum hvíta geirann þar inn líka gætum við verið að tala um enn hærri tölur, 2–3 milljarða á ári sem yrði hagræðing af sameiningunni.

Til hvers er verið að fara þessar leiðir? Það er alveg ljóst að til þess að við getum skapað ákveðið starfsumhverfi fyrir greinina þá þurfum við að halda utan um hana. Tilgangurinn hlýtur að vera sá hjá okkur í öllu þessu að við getum komið því áfram að frumframleiðandinn, bændurnir, eins og sauðfjárbændur eða þeir sem framleiða kjöt, geti haft afkomu af því sem þeir eru að gera. Það er grundvallaratriði í þessu og við þurfum að finna leiðir til þess.

Það eru fleiri punktar sem ég vill leggja áherslu á sem snúa að tollasamningi okkar við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Og síðast en ekki síst er mjög mikilvægur punktur sem snýr að matvælaöryggi og aðgerðaáætluninni sem við ræddum fyrir tveimur árum síðan um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Ég vænti þess að við fáum hér góða og gagnrýna umræðu.