Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[15:53]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu, sem er afar mikilvæg og snýr í grunninn að rekstrarskilyrðum landbúnaðarins. Eins og opinberar hagtölur sýna þá eru greinar landbúnaðarins afar misvel settar hvað varðar afkomu en í grunninn er fólk og fjölskyldur og heimili bak við þessar tölur. Undanfarin fimm ár hefur afkoma einkum í sauðfjárrækt verið afleit og sérstaklega til umfjöllunar og ekki ósennilegt að margar fjölskyldur í sveitum landsins séu uggandi um afkomu sína í haust vegna mikillar hækkunar á áburðarverði og umtali um að frekari hækkanir á öðrum aðföngum sé í kortunum. Það er mikilvægt að fylgjast áfram með rekstrarskilyrðum landbúnaðarins í heild og vinna að bættri afkomu.

Hvað innlenda kjötframleiðslu varðar, sem er fyrirspurn hv. þingmanns, þá hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar í þeim efnum, m.a. það sem hér er nefnt, hvort hægt sé að stuðla að bættri afkomu með því að skoða möguleikann á heimildum til einhvers konar samstarfs sem leiði þá til hagræðingar. Það er í líkingu við það sem gert hefur verið og gildir um framleiðslu mjólkur, samanber umrædda undanþáguheimild frá búvörulögum.

Það vantar ekki viljann hjá mér sem matvælaráðherra til að tryggja góða samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu en það þarf að botna ákveðna þætti í því sem þingmaðurinn spyr mig um hér í dag. En það er munurinn á stöðu afurðastöðva í kjöti nú um stundir og afurðastöðva í mjólk á sínum tíma. Sá munur er á þessum afurðastöðvum að afurðastöðvar í mjólk voru og eru að langmestu leyti í eigu bænda og að fullu undir þeirra stjórn. Það er ekki staðan hjá öllum afurðastöðvum í kjötframleiðslu. Þá er opinber verðlagning á afurðaverði til bænda og að stórum hluta mjólkurvara í heildsölu. Þannig er það mjög vel tryggt að ágóðinn af hagræðingunni skilar sér þar til bænda og neytenda. Þetta þarf að botna og ég hef hug á því að kanna til hlítar hvaða möguleikar eru fyrir hendi í þeim efnum.

Það væri auðvitað hægt að hafa sérstaka umræðu hér bara um það sem mætti gera til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, en tímans vegna langar mig að nefna hér eitt atriði sem ég held að muni skipta höfuðmáli á komandi árum og það eru loftslagsmálin. Með því að bændur hér á Íslandi nái auknum árangri í loftslagsmálum þá tel ég að ná megi fram mikilvægu forskoti á erlenda samkeppni. Með því að geta sýnt fram á að innlendar búvörur hafi léttara kolefnisfótspor en innflutningur muni það í sjálfu sér leiða til þess að neytendur velji þær frekar en innfluttar vörur. En til að slíkt geti borið ávöxt þá þarf það að byggja á staðreyndum og þekkingu frekar en ímyndarsköpun eða markaðsbrellum. Því lít ég á árangur í loftslagsmálum fyrir landbúnaðinn sem lið í því að bæta samkeppnisstöðuna til lengri tíma og að því mun ég vinna sem matvælaráðherra.

Hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um endurskoðun á tollasamningum við Evrópusambandið í ljósi þess að eitt okkar helsta viðskiptaland, Bretland, er ekki lengur aðili að ESB. Þá er því til að svara að íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir því við Evrópusambandið að viðskiptasamningur Íslands og Evrópusambandsins um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður, en þar er um að ræða þann hluta samningsins sem gerður er á grundvelli 19. gr. EES-samningsins og snýr að almennum landbúnaðarvörum, þar á meðal tollkvótum fyrir kjöt- og mjólkurvörur. Forsenda samningsins og forsendur þeirra hafa breyst til hins verra síðan hann var samþykktur, en þar er ójafnvægi á milli samningsaðila, sérstaklega þegar kemur að nýtingu tollkvóta.

Þessari vinnu miðar áfram og verður reynt að hraða henni eins og unnt er. Utanríkisráðherra leiðir þessar viðræður og hans ráðuneyti við ESB um samninginn í nánu samstarfi við mitt ráðuneyti. Meginmarkmiðið þar er að ná fram betra jafnvægi í þeim viðskiptatækifærum sem samningurinn hefur í för með sér, einkum í formi tollkvóta. En á næstu vikum mun utanríkisráðherra eiga fund með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála í Evrópusambandinu og þá má búast við að málið verði tekið upp þar með formlegum hætti.

Í þeim undirbúningi sem ég fékk að þessari umræðu sendi hv. þingmaður mér líka fyrirspurn um sýklalyfjaónæmi þannig að ég tel ástæðu til að eyða minni síðustu hálfu mínútu í að bregðast aðeins við því þó að hv. þingmaður hafi ekki náð að koma að því í sinni spurningu. En þar er auðvitað mjög þýðingarmikið að berjast gegn sýklalyfjaónæmi. Það hefur ríkisstjórnin gert og það gerði síðasta ríkisstjórn sérstaklega. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er sérstaklega tekið fram að það þurfi að tryggja áframhald þessarar aðgerðaáætlunar, sem var fyrst og fremst í samstarfi þá heilbrigðisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verður þessu samstarfi haldið áfram á þessu kjörtímabili í samráði við heilbrigðisráðherra.