Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[15:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Samkeppni er góð. Hún er góð fyrir fólk og hún er góð fyrir fyrirtæki og hún er góð fyrir heilbrigðan markað. Það væri stórt skref aftur á bak að útvíkka undanþáguna sem mjólkuriðnaðurinn hefur notið til kjötafurðastöðva. Það voru mistök á sínum tíma að gera það með þessum hætti. Samfylkingin vill styðja við myndarlegan landbúnað en hafa tolla sem lægsta til að tryggja frjálsa samkeppni í atvinnurekstri og þar með eðlilegt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir hvaða atvinnugrein sem er, líka kjötiðnaðinn.

Hæstv. forseti. Það vill stundum gleymast í þessari umræðu að hagsmunir bænda og hagsmunir afurðastöðvanna fara ekki alltaf saman. Það eru vissulega mörg sóknarfæri í matvælaframleiðslu hér á landi, sérstaklega ef við nýtum betur þau tækifæri sem eru á Evrópumarkaði í þeim efnum. Ég tala nú ekki um ef við hefðum betri aðgang að Evrópumarkaðnum sem t.d. fengist með aðild að Evrópusambandinu. Við vitum að íslenskir bændur hafa framúrskarandi vöru að selja en smæðin er óhagstæð fyrir þennan markað og við þurfum að horfast í augu við það að sauðfjárrækt verður seint stunduð á samkeppnisgrundvelli hér á landi. Stjórnvöld eiga að beina sjónum sínum að því að styðja betur við bændur í formi styrkja sem myndu auka fjölbreytni og framþróun í framleiðslu þeirra og starfsemi og hætta að skilyrða við framleiðslu á kjöti.

Ég vil líka taka undir orð hæstv. ráðherra um að hætta að byggja á þessari ímyndarsköpun og markaðsbrelluhugmyndafræði sem rekin hefur verið. Tölum um hlutina eins og þeir eru, tölum um heilnæm matvæli, tölum um kolefnisspor, og þar með njótum við þess forskots sem við getum haft sem landbúnaðarland.