Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir þessa umræðu og hæstv. mætvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir þátttökuna. Mín fyrstu kynni af landbúnaði svo langt sem ég man aftur voru þegar ég var sex eða sjö ára í Álftafirði þar sem afi minn var bóndi. Ég heyrði hann aldrei kvarta. Þetta var lítið bú. Seinna meir var ég í nokkur ár í sveit í Húnavatnssýslu. Þar var aðallega kvartað undan einu; jú, SÍS, Sambandi íslenskra samvinnufélaga og kaupfélaginu. Þegar viðkomandi bóndi fór með afurðir sínar í kaupfélagið, lagði þær inn og kom svo og bað um pening, þá var hann settur í þriðju gráðu yfirheyrslu og spurt: Hvað ætlar þú að gera við peninginn? Ég man þetta svo vel. Ég var svo hissa vegna þess að ég hélt að hann ætti þetta þarna inni en sú virtist ekki vera raunin. Hann þurfti að segja nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera við peninginn. Þetta sagði mér að bændur væru í ákveðinni fátæktargildru. Þeir eru það enn þann dag í dag. Ég held að lausnin liggi bara í því að þeir leysi sín mál. Kjötframleiðsla á Íslandi — við erum ekki með sýklalyf og það eitt á að gefa okkur gífurlegt forskot. Annað sem á líka að gefa okkur gífurlegt forskot er það sem er verið að gera núna í nautgriparækt þar sem fást mun meiri afurðir af hverjum nautgrip. Við eigum að hampa íslenskri hreinni framleiðslu og ef við gerum það þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því að bændur standi sig ekki. En að fara í enn eina undanþáguna, ég held að það dugi ekki. Þá þarf næst trúlega aðra undanþágu og svo koll af kolli.