Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis taka undir þakkir til málshefjanda þessarar umræðu. 22. október 2020 kom út skýrsla frá Lagastofnun Íslands sem bar heitið Skýrsla um undanþágur frá samkeppnisreglum er varða samstarf milli búvöruframleiðenda í ljósi EES-/ESB-réttar. Í skýrslunni er vel dregið saman hvernig umhverfi afurðastöðva og framleiðslufélaga bænda víða innan EES og ESB býr við allt aðra lagaumgjörð heldur en við búum við hér. Síðastliðinn vetur lagði þáverandi landbúnaðarráðherra fram á samráðsgátt frumvarp til að koma á móts við þau eðlilegu sjónarmið framleiðenda búvöru að skapa hér sambærilega lagaumgjörð og birtist í þessum samanburði sem lagastofnun birti í sinni skýrslu, lagaumgjörð sem ég get tekið undir með málshefjanda þessarar umræðu að verði að ná yfir kjötgeirann líka. En ég vil samt slá undir það sérstaklega, eins og fram kom í máli hæstv. matvælaráðherra, að sú nálgun verður að byggjast á sambærilegri nálgun og í samkeppnislöndum okkar hvað varðar þau sjónarmið og það gagnsæi sem slík löggjöf þarf að hafa. Skýrsla lagastofnunar staðfesti einmitt þau sjónarmið sem lengi hafa komið fram innan landbúnaðarins og víðar að við höfum ekki fylgt eftir uppfærslu eða endurnýjun á löggjöf búvöruframleiðslu hér í landinu, sérstaklega eftir gildistöku EES-samningsins og seinna sérstakra samninga um gagnkvæm tollaviðskipti. Við höfum ekki beitt þeim stýritækjum sem þarf til að bregðast við breyttum aðstæðum, stýritækjum sem eiga að efla innlenda framleiðslu og skapa henni eðlileg sóknarfæri. Í skýrslunni þar sem rætt er um Ísland og sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra kynnti síðastliðið haust eru þessum sjónarmiðum gerð rækileg skil.

Ég vil að endingu, virðulegi forseti, taka undir orð hæstv. matvælaráðherra. Það er vandi hvernig við búum um þetta en það er algerlega hægt og því hvet ég hæstv. ráðherra til að hraða vinnu því við megum engan tíma missa við að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við.