Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu held ég að megi segja að það getur merkilegt nokk farið saman að vilja styðja við bændur, að vilja standa með neytendum og standa með heilbrigðri samkeppni. Hvað gerðist t.d. þegar reglunum var breytt um styrki í grænmetisrækt, þegar við fórum meira í átt að beinum styrkjum? Við munum, a.m.k. sum hérna inni, hvaða val neytendur höfðu um tómata á Íslandi fyrir um 20 árum síðan og við vitum hversu breytt staðan er í dag, hún er bæði betri fyrir neytendur og fyrir bændur. Þess vegna á að treysta samkeppninni. Það á að stuðla að nýsköpun og nýliðun. Ég er þeirrar skoðunar og minn flokkur að það eigi að afnema sérreglu búvörulaga. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef við værum í dag að semja reglur um mjólkuriðnaðinn þá kæmi engum til hugar að stofna opinbera nefnd til að ákveða verð á mjólk, smjöri og rjóma, verðlagsnefnd búvara. Árið er 2022 og þetta er staðan. Ég vil þess vegna nota tækifærið hér í dag og minna á frumvarp okkar í Viðreisn um að þessi nefnd verði lögð niður og framkvæmdanefnd búvörusamninga og að við stuðlum að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun fái að vera í samræmi við almenn markaðslögmál, þær einföldu leikreglur og lögmál. Ég held að íslenska mjólkin geti það. Ég vil sem mesta flóru í innlendri landbúnaðarframleiðslu og legg mig fram um að velja íslenskt og er stolt af framleiðslunni en ég held að breytt styrkjakerfi sé svarið, að við beinum markvissum styrkjum til bænda sjálfra, þeir fái sjálfir að ráða meiru um hvernig þeir vilja haga sinni jarð- og landnýtingu, að við innleiðum hvata með styrkjum til nýsköpunar og um leið betri nýtingu landsins sjálfs. Þarna eru ævintýraleg sóknarfæri. Ég held að það séu fáir betur til þess fallnir en bændur sjálfir að standa undir öflugri stefnu á sviði umhverfis- og loftslagsmála þarna. Við eigum einfaldlega gefa landbúnaðinum (Forseti hringir.) tækifæri til að sækja fram og leiðin til þess er að gefa greininni frelsi og svigrúm til þess.