Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu í almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins sem samþykkt var á Alþingi árið 2016. Fyrir tveimur árum samdi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Landbúnaðarháskólann um að móta tillögu um fæðuöryggisstefnu Íslands. Afurð þeirrar vinnu er skýrsla um fæðuöryggi. Þar kemur fram að Ísland sé í þeirri stöðu að geta framleitt þá fæðu sem þarf til að hafa fullt fæðusjálfstæði en flytur inn hvað mest hlutfall af sinni fæðu. Við erum þó takmörkuð þegar kemur að fjölbreytni framleiðslu úr plönturíkinu. Svo segir, með leyfi forseta:

„Með innflutningi fæðu nýta Íslendingar sér ekki bara það að hafa á boðstólum fjölbreyttari matvörur, heldur líka lægra matvælaverð í öðrum löndum, sem skilar sér í vasa neytenda og/eða verslunarinnar á Íslandi. Í sumum tilfellum er þó innflutningur matvöru óbeinn stuðningur við lága staðla í umhverfismálum, hreinlæti, heilbrigði og dýravelferð, léleg kjör og aðbúnað bænda og landbúnaðarverkafólks.“

Virðulegi forseti. Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun ekki geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurn krefst. Þó er ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvörum. Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, að við þurfum að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi landsins.