Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ef neysla allra jarðarbúa væri í samræmi við neyslu Íslendinga þyrfti 27 jarðir til að standa undir henni. Kolefnisfótspor okkar er tvöfalt stærra en annarra Evrópubúa. Til að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns, að vinna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum, þarf vilja almennings til breytinga og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda. Kolefnisfótspor okkar er stærst í samgöngum, matvælum og með innfluttum varningi. Það er því ekki nóg að tala um orkuskipti í samgöngum, við þurfum líka að breyta matarvenjum okkar og framleiðslu matvæla. Þau grænu umskipti þurfa að vera réttlát bæði fyrir bændur og neytendur.

Athuganir sýna að kolefnisspor íslensks grænmetis er allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Það er því mikill umhverfisávinningur af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti. Það þarf að mæla kolefnisspor kjötframleiðslu hér á landi og bera saman við innfluttar afurðir og nýta niðurstöður til stefnumörkunar. Úti um allan heim eru menn að rannsaka og leggja heilann í bleyti til að finna árangursríkar leiðir til að vinna gegn loftslagsvá af manna völdum. Viðurkennt er að mannkynið þarf að draga úr kjötneyslu. Eitt af því sem fjárfestar keppast nú um að leggja fjármuni sína í er kjötrækt. Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri þar sem þeir vefir sem nýttir eru til matar eru ræktaðir með líftækni. Leyfi hefur nýlega verið veitt til sölu ræktaðs kjöt í kjörbúðum í Singapúr. Kjötið er enn mjög dýrt og þróa þarf aðferðirnar áfram. En ég tek undir það sem hér hefur áður verið sagt í þessari umræðu, að þessari tækni þurfi að gefa meiri gaum hér á landi.