Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta er búin að vera þörf umræða, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að við séum öll úti á túni og hver á sínu túninu að spá í hvað sé rétt að gera. Ég hef enga allsherjarlausn á því, en ég geri mér grein fyrir því að það er hellingur af bændum sem getur ekki lifað af sínum búfjárstofnum og eru þar af leiðandi komnir í eina eða tvær aðrar vinnur til að reyna að framfleyta sér og fjölskyldunni og það er ekki gott. Það er eitthvað sem segir okkur að þá virki kerfið ekki sem skyldi. En ef við tökum okkur sem neytendur og ég horfi aftur í tímann þá eru ekki mörg ár síðan þegar ég fór í verslun til þess að kaupa mér kjöt og á hvað horfði ég fyrst? Íslenskt. Hvað svo? Verðið. Hvað svo? Erlent. Þá komst ég að því erlenda varan var í flestum tilfellum mun ódýrari. Þá er það spurningin: Hvað réði því hvað ég valdi? Jú, kaupmáttur minn. Í dag er engin spurning að ef ég fer út í búð og ætti að velja á milli erlendrar nautasteikur og íslenskrar þá myndi ég velja þá íslensku einn, tveir og þrír. Hún er mun betri, miklu betri vara og ég veit hvað ég er að kaupa þar. Ég veit ekkert hvað ég er að kaupa í þeirri erlendu, ég hef ekki hugmynd um það hversu mikið sýklalyf voru notuð eða hvernig hún var framleidd. Þetta er það sem við eigum að einbeita okkur að, ná verðinu niður á íslenskum afurðum þannig að allir geti notið, ekki bara þeir sem hafa efni á að kaupa íslenskar vörur.