Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:20]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mikil tækifæri felast í ímynd lands okkar og hreinleika. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að ganga vel um auðlindir okkar til að geta sýnt fram á sérstöðu okkar sem framleiðendur í sátt við land okkar og samfélag. Það er ekki nóg að segjast vera með hreinar afurðir og hreint umhverfi. Við verðum að geta sýnt fram á það. Bændur eiga í sífellt harðari samkeppni við kollega sína í öðrum löndum þar sem okkar bændur þurfa að keppa við framleiðendur sem búa að því að vera með mun styttri ræktunartíma en okkar bændur og markaðir gríðarstórir. Maður hefur það oft á tilfinningunni að bændum hér á landi sé gert að keppa eingöngu á forsendum verðs en ekki endilega gæða. Því er gríðarlega mikilvægt að samkeppnisstaðan sé jöfn, að við gerumst sambærilegar kröfur til þeirra vara sem fluttar eru til landsins og okkar eigin vara. Þarna er ég að tala um dýravelferð, heilnæmi vörunnar, lyfjanotkun og aðbúnað starfsfólks sem vinnur við vöruna. Öll keðjan þarf að vera í lagi. Hér á landi eru gerðar miklar kröfur til landbúnaðarframleiðslu og við eigum að gera sambærilegar kröfur til þeirra vara sem til landsins eru fluttar. Kína framleiðir í dag um 40% af öllum eggjum í heiminum. Annað hvert egg sem selt er í Þýskalandi er innflutt. Egg eru flutt inn til Íslands frá Þýskalandi. Getum við með vissu sagt að það sé þýskt egg? Árið 1925 tók það um 16 vikur að rækta kjúkling upp í sláturstærð. Í dag tekur það sex vikur að rækta upp kjúkling í sláturstærð sem er í dag um helmingi þyngri en árið 1925. Þessi dæmi nefni ég hér sem dæmi um fjöldaframleiðslu landbúnaðarvara. Við verðum aldrei fjöldaframleiðendur á þessum skala en bændum hér á landi er samt sem áður gert að keppa við þessa massaframleiðslu.

Ég skora á hæstv. matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur að koma upprunamerkingu matvæla í betra horf hér á landi (Forseti hringir.) og höfum það hugfast að landbúnaður er grunnstoð allra samfélaga.