Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í dag á innlend matvælaframleiðsla undir högg að sækja á mörgum sviðum. Áratugalöng miðstýring og kerfi byggt á styrkjum hefur orsakað óhagkvæmni og ósjálfbærni. Ísland er kjörið land til að framleiða sjálfbærar og lífrænt ræktaðar vörur þar sem gæði og heilnæmi eru í fókus frekar en magn. Þó svo að neytendur gærdagsins hafi einungis einblínt á verð og aðgengi eru nýjar kynslóðir meðvitaðri um mikilvægi sjálfbærni og lífrænnar framleiðslu. Sjálfbærni felst m.a. í því að gera matvælaframleiðsluna sjálfa óháða erlendum hráefnum, eins og t.d. ólífrænum áburði sem ríkið þurfti einmitt að niðurgreiða nú nýlega vegna mikilla hækkana á innflutningsverði. Þó svo að hinn ólífræni áburður hafi skilað sér í auknu magni af heyi hefur sú aukning bliknað í samanburði við þá aukningu sem orðið hefur vegna nýrrar tækni við slátt og meðhöndlun á heyi. Sú tæknibylting opnar því jafnvel á þann möguleika að hverfa aftur til lífræns áburðar sem einmitt styður sjálfbærni og umhverfisvænni ræktun.

Með þetta að leiðarljósi langar mig að spyrja hæstv. matvælaráðherra hverjar áætlanir ráðuneytisins séu þegar kemur að því að auka sjálfbærni og lífræna ræktun hér á landi.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. matvælaráðherra hvernig ráðuneytið hyggst stuðla að aukinni nýsköpun á þessu sviði en þær upphæðir sem lagðar eru í Matvælasjóð eru allt of lágar til að standa undir þeirri þörf sem þar er. Þar skortir einnig fjármagn til að standa undir því stoðkerfi sem nauðsynlegt er að hafa samhliða nýsköpunarstyrkjunum.