Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:25]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum um aðgerðir til að bæta stöðu íslenskra framleiðenda þá verðum við líka að standa vörð um hagsmuni íslenskra neytenda. Það eru að endingu alltaf þeir sem þurfa að borga brúsann. Undanþágur frá samkeppnislögum og aukin tollvernd eru til þess fallin að hækka verðið á matarkörfunni. Nú þegar verðlag hækkar hratt og kaupmátturinn minnkar þá er það ekki eitthvað sem heimilin í landinu mega við. Á sama tíma og landbúnaðurinn stendur höllum fæti er enginn skortur á íslenskum kjötvörum í verslunum. Ef eitthvað er hefur framleiðslan oft verið langt umfram það sem tekst að selja. Hvað verður um öll verðmætin? Þau glatast í kerfi sem er of niðurnjörvað og beintengt framleiðslumagni.

Við í Viðreisn höfum lagt til að samkeppnisundanþágur landbúnaðarins verði felldar niður og stuðningskerfið bætt svo að það taki til fleiri þátta; skógræktar, endurheimtar votlendis, ferðaþjónustu og nýsköpunar og kannski ekki síst framleiðslu á fjölbreyttari matvöru. Þannig og aðeins þannig getum við tryggt hagsmuni bæði bænda og neytenda. Ólíkt þeim sem tala hér fyrir aukinni tollvernd þá hef ég tröllatrú á íslenskri matvælaframleiðslu og tækifærum hennar erlendis. Gleymum því ekki að tollverndin gengur í báðar áttir. Þegar við lokum landinu fyrir innfluttum matvælum og frelsi neytanda þá lokum við líka tækifærum íslenskra framleiðenda til að skapa sér tækifæri erlendis. Er það ekki annars það sem þingmaðurinn á við þegar hann talar um að endurskoða tollasamninginn við ESB, sem er stærsti og mikilvægast fríverslunarsamningum sem við höfum gerst aðilar að? Að setja skorður á innflutning þýðir að verið er að setja skorður á útflutning á sama tíma.