Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:27]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það hefur verið gagnlegt að hlusta á umræðuna í dag. Það sem stendur upp úr er að stórauka þarf stuðning við innlenda matvælaframleiðslu og að við getum séð til þess rekstrarafkoma greinarinnar verði sterk. Hæstv. ráðherra kom nefnilega réttilega inn á það að þetta snýst um fjölskyldur. Þetta snýst um fólk og lifibrauð fólks. Við verðum þess vegna að taka það með í reikninginn að aukin fjárframlög til greinarinnar væru besti og skynsamlegasti kosturinn, en samhliða því þarf að búa til landsáætlun um aukna sjálfbærni, m.a. þurfum við að huga að orkuskiptum og áburðarnotkun. Það hefur komið fram hér fyrr í umræðunni að við þurfum að snúast með hjólinu, ég tek undir það, og það má heldur ekki gleymast í þessari umræðu að við þurfum að styrkja frekar tækifæri til lífrænnar framleiðslu og nýsköpunar í þeirri hefðbundnu. Það segi ég vegna þess að við sjáum oft ekki ávinninginn fyrr en að mörgum árum liðnum og ég hef heyrt á bændum að það sé erfitt að fóta sig í regluverki Evrópusambandsins hvað það varðar. Við getum líka nefnt innlenda kornrækt og kjarnfóðursframleiðslu, þannig að það er að mörgu að hyggja. Til að nefna einn mikilvægan þátt í viðbót þá gætum við séð til þess að matvælaframleiðsla nyti sömu kjara og stóriðjan nýtur með tilliti til orku. Þegar allt þetta er tekið saman má segja að við þurfum að gera langtímasamning við bændur. Við þingmenn Miðflokksins höfum beitt okkur fyrir þeirri mikilvægu grundvallarstoð sem innlend matvælaframleiðsla er í höndum bænda vítt og breitt um landið og ég vona sannarlega að svo verði áfram.