Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:29]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara þakka kærlega fyrir þessa góðu og fjölbreyttu umræðu sem hefur átt sér stað. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir virkilega góð og greinargóð svör og sömuleiðis ykkur, kæru hv. þingmenn, sem tóku þátt. Það er margt komið fram sem er verulegt umhugsunarefni og ég punktaði hjá mér ansi margt sem kom fyrir. Það sem kveikti í mér til að byrja með var hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sem var úti á túni. Í grunninn var hv. þingmaður ekki úti á túni. Grundvallaratriðið þegar við fjöllum um það sem snýr að undanþágunni, þ.e. að ná hagræðingu fram, snýr að því að ná verðinu niður, að ná hagkvæmninni fram í greininni. Við erum í þessu samhengi ekki bara að hugsa um hag frumframleiðandans, við erum að hugsa um alla virðiskeðjuna, þ.e. við erum að hugsa um neytendur líka. Það er grundvallaratriðið í því sem við erum að ræða. Við verðum að hafa það hugfast, Íslendingar, sem matvælaframleiðsluland, að það verða alltaf, ef við horfum heildstætt á heiminn, fleiri munnar í mat á morgun en eru í dag. Það er grundvöllurinn sem við eigum að ganga út frá og hvernig við getum tryggt að við getum framleitt hér matvæli þannig að allir hafi hag af því, og ekki síst neytendur og bændur.