Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:31]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og hv. málshefjandi þakka fyrir góða og breiða umræðu. Þetta vekur okkur til umhugsunar um það hversu mörg umræðutilefni við eigum og getum sannarlega tekið það áfram. En grundvallaratriðið er að það eru gríðarlega mikil tækifæri í innlendum landbúnaði og við verðum að huga að því hvaða hvata við sem stjórnvöld erum að leggja í okkar stjórntæki, hvort sem það eru búvörusamningar, lagaumhverfi eða annað, til þess að við sjáum fyrir okkur í hvaða átt við viljum draga okkar kerfi. Þar viljum við hugsa um nýsköpun. Þar viljum við hugsa um dýravelferð og umhverfismál. Við viljum hugsa um matvælaöryggi og fæðuöryggi en við viljum líka hugsa um afkomu bænda. Við viljum hugsa um aukna áherslu á lífrænan landbúnað, sem hér hefur verið nefnt. Við viljum hugsa um rekjanleika, upprunamerkingar og allt þetta sem sífellt meiri meðvitund neytenda gerir kröfu um og á að gera kröfu um. Innlendur landbúnaður á alla möguleika á því að koma í auknum mæli til móts við það. Við eigum að hugsa um það líka að holl og heilnæm matvæli séu aðgengileg öllum, að við öll í samfélaginu getum keypt góðan, öruggan og hollan mat. Það skiptir líka máli. Við þurfum að hugsa um það, þegar öllu er á botninn hvolft, að okkar ákvarðanir séu í þágu okkar loftslagsmarkmiða, að við hverfum frá matarsóun, sem einkennir okkur allt of mikið á Vesturlöndum, og þar sem hagsmunir framleiðenda og hagsmunir neytenda en fyrst og fremst hagsmunir framtíðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.