Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

38. mál
[17:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Enn einu sinni erum við að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja. Þetta ætti að vera svo sjálfsagt mál að við ættum ekki að þurfa að vera mæla fyrir þessu máli ár eftir ár en því miður er það svo. Staðreyndin er sú að þeir sem hafa byggt upp þetta almannatryggingakerfi ríkisstjórn eftir ríkisstjórn undanfarna áratugi hafa byggt upp kerfi sem er mannfjandsamlegt, kerfi sem segir við fólk, hvort sem það er vegna veikinda, slysa eða geðrænna vandamála, að það sé ekki annars flokks heldur liggur við í ruslflokki. Það er búið að byggja upp kerfi sem gerir ekkert annað en að drepa kerfisbundið niður allan vilja, lífsvilja og alla sjálfsbjargarhvöt hjá viðkomandi einstaklingum. Fólk með geðræn vandamál getur unnið. Það getur ekki unnið alltaf en það á að geta unnið á sínum forsendum. Þá á ríkið ekki að segja við einstakling: Af því að þú ert með þennan sjúkdóm þá ætlum við ekki bara að refsa þér heldur loka þig inni í örorkukerfi þar sem þú hefur ekki möguleika á að framfleyta þér. Ef þú ætlar að reyna það með því að fara að vinna kannski í tvo, þrjá mánuði, sex mánuði, þá ætlum við að refsa þér grimmilega. Það hlýtur að vera svolítið undarlegt fyrirbrigði að ef þú er tilbúinn til að borga einhverjum einstaklingi lágmarksframfærslu, sem við vitum öll að hann getur ekki lifað á, ert tilbúinn að borga hana ár eftir ár, þá sértu ekki tilbúinn að segja við viðkomandi: Þú mátt fara út að vinna, við skulum borga þér áfram, þú ferð að vinna, vinnur eftir þinni getu, færð þín laun og borgar þína skatta til þjóðfélagsins. Þú hefur tilgang. Hver græðir á þessu? Einstaklingurinn og ríkið líka, vegna þess að þessi einstaklingur, þegar hann er að vinna, borgar skatt. Meðan hann er heima hjá sér og er ekki í vinnu þá borgar hann ekki skatt nema jú af þessari lágmarksframfærslu sem hann fær. Það er auðvitað til háborinnar skammar að mörgu leyti að það skuli vera þannig að viðkomandi borgar skatta af tekjum, framfærslu sem er ekki hægt að lifa á.

En það er hægt að breyta þessu. Þetta frumvarp er fyrsta skrefið í því að leyfa viðkomandi að finna sér sína vinnu á eigin forsendum, vinna þegar hann getur, fara til baka ef hann getur það ekki, geta komið svo bara aftur. Gefa honum þetta ár. Þær röksemdir hafa margoft komið fram að ef það á að gera eitthvað svona þá verði það svo vinsælt að allir fari að svindla sér inn í þetta kerfi. En eins og ég hef alltaf sagt og ítreka það: Þeir sem reyna að svindla sér inn í þetta kerfi eru alvarlega veikir og þar af leiðandi eiga þeir heima í kerfinu. Ég hef ekki hitt einn einasta einstakling sem vill vera lokaður inni í þessu kerfi.

Við erum með ótrúlegustu hindranir í kerfinu. Skerðingarnar fara svo vítt um allan völlinn að það er eiginlega vonlaust að henda reiður á því. Það sem er kannski skelfilegast í þessu er að eins og kerfið er byggt upp í dag þá hefur viðkomandi 109.000 kr. frítekjumark en það segir ekkert alla söguna, þetta frítekjumark gildir ekki fyrir allt. Og ef viðkomandi hefur tekjur frá lífeyrissjóði þá skerðist þetta 109.000 kr. frítekjumark. Ef einstaklingur fær aðrar bætur eins og sérstakar húsaleigubætur eða eitthvað þá skerða tekjurnar þær bætur. Kerfið er svo flókið og gildrurnar eru svo margar að á hverju ári lendir fólk í því stórfurðulega fyrirbæri sem er skerðingardagurinn mikli. Hann var 1. ágúst, er núna 1. júlí. Á þessum degi byrjar oft skelfingin. Maður hefur lent í þessum skelfingardegi. Maður hefur lent í því að fá bréf inn um lúguna, lent í því að sjá það og maður fær ekki krónu í heilt ár. Hvers vegna? Jú, af því að viðkomandi fékk einhverjar smátekjur annars staðar, tekjur sem hann þarf á að halda til að geta bjargað sér.

Eina krafan sem við öryrkjar gerum er að eiga okkur líf á við aðra, geta lifað eðlilegu lífi. Með þessu bútasaumaða skrímsli sem kerfið er er það alveg gjörsamlega vonlaust. En með þessu frumvarpi er verið að stíga ákveðið skref í því að gefa fólki kost á því að prófa hvort það komist út á vinnumarkaðinn. Því fylgir líka að vinnumarkaðurinn taki á móti fólki. En því miður, sem er eitt það skelfilegasta í þessu öllu saman, hafa verstu óvinir öryrkja á vinnumarkaði að mörgu leyti verið ríki og sveitarfélög. Það er sorglegt. Ég man sérstaklega eftir, og ég endurtek það aftur og aftur, sem mér fannst alveg stórfurðulegt á sínum tíma en það var þegar hagræðing var hjá Strætó. Með því fyrsta sem var gert til að hagræða var að segja upp einstaklingum í hjólastól sem voru í símsvörun. Svoleiðis framkoma heyrir vonandi algerlega sögunni til.

Við eigum að sjá til þess að allir geti sótt vinnu við sitt hæfi og fengið laun fyrir. Bara það að gefa einstaklingnum færi á að fara út og reyna sig og fá laun gerir það að verkum að hann getur híft sig upp fyrir þessi fátæktarmörk, lágmarksmörk fátæktar sem flestallir, því miður, meiri hluti öryrkja, eru undir. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur talað um að nú þurfi að breyta kerfinu, búa til nefndir. Ég hef setið í þeim nokkrum. Ég sat í Péturs Blöndals nefndinni, ég sat í síðustu nefnd og ég fæ eiginlega aulahroll ef það á að tala um eina nefndina í viðbót. Ég veit ekki hversu mikil og þung gögnin eru sem hefur verið dælt inn í þessar nefndir til að reyna að sannfæra öryrkja um að það sé í lagi að henda þeim út á guð og gaddinn án nokkurra björgunarhringja eða nokkurs annars sem getur tekið á móti þeim ef þeir geta ekki staðið sig á vinnumarkaði.

Málið er einfalt. Það er hægt að búa til mjög einfalt kerfi þannig að viðkomandi sem vill reyna sig á vinnumarkaði fer inn í kerfið og í þessu dæmi sem við leggjum til hér erum við að reyna að leyfa viðkomandi einstaklingi að vinna í tvö ár án skerðingar en erum samt með ákveðinn varnagla um það sem gerist þegar náð er meðallaunum. Það á enginn að græða á því, það er ekki sanngjarnt þegar tveir einstaklingar eru að vinna, annar er öryrki og hinn fullfrískur, að öryrkinn fari langt upp fyrir hinn í launum og tekjum sem er bara venjulegur vinnumaður. En við megum heldur ekki gleyma því að öryrkinn ber alltaf ákveðinn bagga, sem fötlunin er. Það er kostnaður sem má ekki nota til þess að skerða kjör.

Það er allt sem mælir með því að leyfa einstaklingum að fara út að vinna, allt. Ég varð oft var við í þessu nefndarstarfi að sjónum er oft beint að röngum hlutum. Þegar fullfrískur einstaklingur sem aldrei hefur verið í þessu kerfi á að fara að segja þeim sem eru í kerfinu hvernig kerfið á að vera, hvernig það á að virka, er það ávísun á algjöra hörmung. Ef ég hefði reynt að segja einhverjum hvernig það er að vera í örorkukerfinu, hvernig það virkar og hvaða afleiðingar það hefur og ætlað að fullyrða að ég hefði alla þræði á hreinu og vissi allt um hvernig það fúnkeraði, þá segi ég bara: Guð hjálpi mér. Maður áttar sig aldrei á þessu þegar maður lendir inni í kerfinu og maður áttar sig heldur ekki á kerfinu fyrr en það lemur mann. Kerfið lemur fólk niður aftur og aftur og það fer að átta sig á því að það er lokað inni í þessu kerfi sem verður alltaf verra og verra meðan sú staða er uppi að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sér ekki að hún þarf að setjast niður með þeim sem lifa í þessu kerfi og búa þannig um hnútana að þegar viðkomandi vill fara út á vinnumarkaðinn sé það gert á hans forsendum en ekki á forsendum kerfisins eða viðkomandi ríkisstjórnar. Við þekkjum þetta af reynslunni. Við höfum mörg okkar séð myndina frá Bretlandi um afleiðingar kerfisins þar sem eiginlega má segja að tölvan segði alltaf nei. Viðkomandi var ekkert öryrki, hann gat unnið. Afleiðingarnar voru þær, það kom skýrt í ljós, að hann gat ekki staðið undir þeirri kröfu.

Svona kerfi höfum við búið til. Svona kerfi höfum við viðhaldið. Svona kerfi erum við enn að viðhalda. En með þessu skrefi, fyrsta skrefinu, að samþykkja þetta frumvarp núna í fjórðu atrennu, erum við að brjóta upp kerfið. Við erum virkilega að reyna að brjóta upp þetta kerfi sem núverandi ríkisstjórn segist ætla að endurskoða kannski í haust, kannski á næsta ári, kannski aldrei. Við skulum vona heitt og innilega að þeir sjái ljósið og samþykki þetta mál, sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að við stígum þetta skref. Þetta er bara hænuskref í sjálfu sér en risastórt skref fyrir alla þarna úti. Ef við tökum bara 30%, eins og var í Svíþjóð, af þeim sem eru þarna úti og eru öryrkjar í dag og myndu máta sig við þetta kerfi, færu í þetta úrræði og 30% myndu ekki skila sér aftur inn í örorkukerfið, vitið þið þá hvað við erum að tala um? Við værum að tala um 5.000–6.000 manns. Þetta yrði stærsta stökk sem hefur verið tekið í málefnum öryrkja.

Vonandi fáum við þetta samþykkt og vonandi munu sem flestir reyna sig í þessu kerfi og vonandi losna sem flestir út úr kerfinu því ég get alveg sagt ykkur það að það er mjög frelsandi að vera laus úr þessu kerfi og ég er alveg sannfærður um það að það er enginn þarna úti sem vill vera í þessu kerfi, það er enginn þarna úti sem hefur beðið um að vera í því. Það er enginn þarna úti sem hefur í eina mínútu ekki óskað þess að hann slyppi út úr því fangelsi sem þetta kerfi hefur búið fólki.