Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

38. mál
[17:42]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að byrja á að þakka fyrir að hafa hv. þingmenn Ingu Sæland og Guðmund Inga Kristinsson hér í salnum og hér á þingi. Það þýðir að hér fær þingheimur og þjóðin öll beint í æð þennan reynsluheim, þessa áralöngu reynslu af því að berjast við kerfið. Og hver þekkir þetta kerfi betur en fólkið sem þarf að lifa undir því? Við munum, bæði við sem höfum staðið aðeins fyrir utan kerfið og ekki síst fólk sem þarf að vera innan þess, hvernig umræðan hefur verið í gegnum árin. Hv. þm. Inga Sæland kom nú aðeins inn á það hvernig talað er um nauðsyn þess að fækka öryrkjum og hvað það þýðir. Þar undir er alltaf verið að ýja að því að það séu of margir öryrkjar og of margir að svindla. Það kom alræmd skýrsla frá Ríkisendurskoðun 2013 sem þurfti síðan að draga til baka og biðjast afsökunar á, það var nánast léleg þýðing og yfirfærsla á danskri skýrslu um umfang örorku. Það var hlaupið með hana héðan úr þinginu og hún var notuð til þess að berja á fólki: Við erum hérna með tölur, það eru bara of margir öryrkjar.

Ég leyfi mér að segja fyrir mitt leyti, eins og ég upplifi það, að þetta hefur verið að lagast smátt og smátt. Það er aðeins farið að slá á fordómana og þar munar auðvitað rosalega miklu um fólk sem er tilbúið að standa upp og berjast og segja bara: Ég er á þingi. Ég komst inn á þing og hvað ætlið þið að gera í því?

Varðandi þennan fjölda öryrkja. Ókei, segjum að það séu of margir, út af hverju er það? Mesta umfangið er í andlegri örorku, geðrænum veikindum. Það er mjög oft vegna þess að fólk hefur ekki fengið viðeigandi aðstoð og hefur brunnið út og hefur bara dottið neðar og neðar. Ég tek því alveg undir það að ef fara á í aðgerðir til að fækka fólki á örorku þarf að byrja að spyrna við fótum, leyfa fólki að komast út úr þessu sjálft og treysta því.

Varðandi það sérstaka mál sem hér er verið að mæla fyrir þá er eins og viðhorfið sé á þann veg að það sér rosalega auðvelt fyrir öryrkja að rjúka bara út og fá vinnu og vera á örorkugreiðslu samhliða því að vinna, að fólk sé bara í biðröðum að bíða eftir þessu. Það eru hindranir til staðar. Þetta er ekki auðvelt. Jafnvel þó að það yrði aðeins skrúfað fyrir þá er ótti við breytingar. Það er ótti við að ef opnað er á einhverjar gáttir muni peningar bara fara að flæða úr ríkissjóði.

Ég ætla líka að leyfa mér að taka undir hugmynd hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar. Ef fólk stoppar svona rosalega mikið við þetta, ef fólk sér ekki fyrir sér breytingar sem það telur sig ekki vita hvernig verði, af hverju ekki að prófa í smátíma? Við erum að fara í gegnum algerlega fordæmalausa tíma þar sem öll kerfi hafa riðlast og við erum að reyna að ná okkur upp úr því. Af hverju getur ekki hluti af því að reyna að vinna sig út úr því verið að prófa sig aðeins áfram og prófa eitthvað nýtt? Ég ætla bara að þakka enn og aftur fyrir þetta mál og fyrir veru þingmanna hér á þingi sem koma og skýra fyrir okkur sinn reynsluheim.