Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

39. mál
[17:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þrátt fyrir að um 30 ár séu liðin frá því að ég tók námslán þá hefur lítið breyst. Það er enn ætlast til þess að stúdentar lepji dauðann úr skel og búi frítt í foreldrahúsum. Enn þann dag í dag þekkjum við öll fólk sem hefur mátt sætta sig við margar vikur af ristuðu brauði og núðlum og þegar þau svo reyndu að vinna sér inn aukapening til að hrista aðeins upp í mataræðinu þá var það verðlaunað með lægri lánum og fleiri núðlum. Upphæð framfærslulána hefur sennilega hækkað að krónutölu á þessum árum, þó það nú væri, verðlag hefur rúmlega þrefaldast síðan árið 1990. Það er samt enn þá þannig að framfærslan sem námsmönnum er skömmtuð nær ekki helmingnum af þeirri upphæð sem er talin lágmark fyrir útlendinga sem vilja fá dvalarleyfi hér á landi. Sérstakt lán fyrir húsnæði er einungis 60% af leiguverðinu á ódýrasta stúdentagarðinum og helmingur af því sem ódýrasta stúdíóíbúð á nýrri stúdentagörðunum kostar.

Aðstæður stúdenta eru misjafnar. Sumt fólk er á leigumarkaði, annað er í foreldrahúsum. Þá eru mörg jafnframt búin að stofna fjölskyldu. Það þarf að taka mið af misjöfnum aðstæðum stúdenta þannig að kerfið nái yfir þau öll. Barnastyrkirnir sem Menntasjóður námsmanna býður t.d. upp á duga varla til að dekka alger grunnatriði eins og leikskólagjöld, mat og fatnað á börnin. Stúdentar sem hafa ekki sterkt fjárhagslegt bakland þurfa að vinna með námi. Ef marka má tölur frá Eurostudent er hópurinn án baklands á Íslandi mjög stór eða um 72%, því að það eru 72% íslenskra stúdenta sem vinna með námi. Það er miklu hærra hlutfall en meðal kollega þeirra á Norðurlöndum. Þá myndast hins vegar leiðindavítahringur því um leið og þau fara að vinna meðfram náminu skerðist framfærsla þeirra fljótt. Frítekjumark námsfólks í dag er einungis um 1,4 milljónir á ári þrátt fyrir hækkunina í nýjustu úthlutunarreglunum. Það er því mikilvægt að tekjutenging námslána sé afnumin eins og lagt er til í þessu frumvarpi. En við þurfum einnig að afnema þá þörf að stúdentar þurfi að vinna með skóla, enda er fullt nám full vinna. Það krefst þess að grunnframfærslan sé hækkuð verulega til að tryggja að hún dugi á meðan á námi stendur. Ef stúdentar velja svo að vinna ættu þær tekjur ekki að hafa áhrif á framfærslulánin. Hver trúir því í alvöru að fólk geti skrapað saman svo miklum tekjum yfir sumarmánuðina að þær dugi hina níu mánuði ársins?

Jafnt og þétt þurfum við því að auka hlutfall styrkja í kerfinu og draga úr því að fólk sitji uppi með lán sem þarf að borga af í áratugi. Einhver skynsamlegasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í er að stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að námi loknu. Slíkar aðgerðir er nokkuð sem væri ekki eitthvað nýtt heldur hefur sést t.d. nýlega í því íhaldssama landi Bandaríkjunum, en þar var verið að skera niður og umbreyta skuldum námsmanna og fella þær niður. Kannski getum við lært eitthvað af Ameríkönum?

Það er mikilvægt að við gerum stúdentum kleift að koma undir sig fótunum, kaupa sína fyrstu íbúð og fara erlendis í frekara nám þrátt fyrir að hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að fara í nám. Þetta viðhorf, að stúdentar þurfi að þjást með námi, lifa á núðlum, að stúdentar þurfi að vinna fullt starf á sumrin þannig að þau geti sloppið með að vinna bara smávegis með fullu námi á veturna, er skammsýnt viðhorf. Stúdentar eiga að hafa svigrúm til að einbeita sér að náminu og taka þátt í háskólasamfélaginu. Háskólanám er nefnilega ekki bara bóklestur og verkefnaskil. Það er samfélag sem á sér fáa líka. Að verja tíma með fólki með mismunandi áhugasvið úr mismunandi deildum háskólanna og kasta á milli sín hugmyndum er ávísun á frjóa hugsun og nýsköpun sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp af. Það eru því ekki bara stúdentar sem fara á mis við margt ef þeir geta ekki tekið þátt í háskólasamfélaginu heldur Ísland allt. Tímarnir hafa breyst, aðstæður hafa breyst, námskráin hefur breyst og framtíðin krefst breytinga. Lánasjóðskerfið þarf að breytast með.