Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

39. mál
[18:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, launatekjur, frummælandi hv. þm. Tómas A. Tómasson. Ég tek heils hugar undir þetta frumvarp, enda er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins á því. Að þurfa að leggja fram þetta frumvarp um að leyfa námsmönnum að vinna með námi, þeim sem vilja, er eiginlega stórfurðulegt. Að skerða lán, að þú fáir minna lán fyrir að reyna að vinna til að gera hag þinn betri, skerða lánveitingar. Það er ekki verið að gefa peningana, hefur lána. Hvers vegna í ósköpunum þarf að skerða peninga sem verið er að lána ef einhver vill bjarga sér og fá meiri pening með því að vinna? Þetta er eitt af þessum refsikerfum sem við höfum komið á, sem er alveg stórfurðulegt og eiginlega fyrstu verðlaun í heimsku eins og með mörg kerfi, almannatryggingakerfið og fleiri. Þetta er alveg með ólíkindum vegna þess að ef við lítum á þá sem vilja vinna, námsmenn sem vilja vinna með námi, hvað skilar það þeim? Jú, það skilar þeim tekjum og þau standa betur að vígi. Það skilar þeim líka því að þau þekkja vinnumarkaðinn. Er það ekki bara flott? Námsmenn sem fara að vinna og vilja vinna og geta unnið fá reynslu af vinnumarkaði. Eigum við að refsa þeim fyrir það? Það er bara heimska, algjör heimska.

Við erum með svo ótrúlega furðuleg og gölluð kerfi að maður verður stundum gjörsamlega orðlaus yfir því. Og eins og í öllum hinum skrýtnu kerfunum þá er líka í þessu kerfi passað upp á að hafa ekki rétta framfærslu. Það er ekki byrjað á því, eins og ætti að gera í almannatryggingakerfinu og þessu kerfi og öllum hinum, að reikna út hvað viðkomandi þarf til að lifa mannsæmandi lífi. Þegar við erum búin að finna það út þá borgum við það eða lánum það og búum jafnvel til styrki til að milda höggið þegar viðkomandi fer út á vinnumarkaðinn. En við refsum ekki þessu fólki fyrir að vera duglegt. Á sama tíma og við erum með svona refsikerfi þá öskrar atvinnulífið á fólk, það vantar fólk. Ég sá bara í gær að það vantar ekki bara fólk, það vantar húsnæði, vantar allt, á Egilsstöðum vantaði 60–100 manns í vinnu en þeir gátu ekki fengið fólk í vinnu vegna þess að það var ekki til húsnæði. Ég spyr mig: Hversu margir af þeim einstaklingum sem eru þarna að reyna að fá vinnu eru námsmenn sem hafa húsnæði á staðnum og myndu vilja vinna ef það skilaði þeim einhverjum ávinningi?

Við verðum að fara út úr þessum kassa og fara að hugsa um það hvað er eðlilegt að hafa, hafa ekki alltaf þessar girðingar og hindranir sem við erum að búa til. Vonandi verður þetta mál samþykkt. Vonandi fer ríkisstjórnin að sjá ljósið og vonandi fara þeir að taka á einhverjum af þessum heimskulegu gildrum í þessum heimsku kerfum sem þeir hafa byggt upp og komið þeim í þannig horf að þau séu byggð upp fyrir fólk til þess að hjálpa fólki.