Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

39. mál
[18:09]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tómasi Andrési Tómassyni fyrir frumvarpið sem hann mælti fyrir hér áðan. Ég held að það sé ekki hægt að vera annað en sammála því frumvarpi. Tómas er glöggur maður, eins og við höfum kynnst sem höfum starfað með honum frá síðustu kosningum og í aðdraganda þeirra. Ég held að ekkert okkar hafi gert sér grein fyrir þessu og auðvitað er það hlutverk okkar hér í þessum sal að fínstilla hluti. Ástæðuna fyrir því að þetta er eins og það er má kannski rekja aftur til þeirra tíma þegar hér var óðaverðbólga, það var nánast eins og í Argentínu eða í þriðja heiminum, ég held við höfum náð ríflega 100% verðbólgu þegar verst lét, og þá voru það forréttindi að fá lán yfir höfuð. Ég trúi ekki öðru en að allir góðir og skynsamir alþingismenn muni taka þessu jómfrúrfrumvarpi Tómasar Andrésar Tómassonar fagnandi og klappa það upp í gegnum nefndir og í afgreiðslu hér í þingsal. Til hamingju, kæri Tómas.

Ég get ekki látið hjá líða að ljúka lofsorði á framgöngu og framsögu þingmanna sem hér hafa tjáð sig. Þá á ég auðvitað við flokkssystkini okkar Tómasar sem hér hafa tjáð sig, en ég er líka að tala um þá ágætu ræðumenn sem stigið hafa í stólinn hér í dag, hv. þingmenn Pírata, Gísla Rafn Ólafsson og Halldór Auðar Svansson. Nú ætla ég að viðurkenna að ég var enginn sérstakur aðdáandi Pírata þegar sá flokkur hóf göngu sína því að mér fannst hann beinast að hagsmunum tónhöfunda og tónverkamanna, að hann væri beinlínis þeim til höfuðs. En það hefur ítrekað komið mér skemmtilega á óvart hvernig þingmenn Pírata hafa stigið fram hér í þinginu. Ég veit frá fyrra kjörtímabili að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var í hópi þeirra sem leiðbeindu nýjum þingmönnum úr Flokki fólksins og kenna þeim d´Hondt-kerfið og fleira. Ég hef ekki heyrt mikið glæsilegri lokaorð fráfarandi þingmanns á Alþingi en þau sem Helgi Hrafn Gunnarsson lét út úr sér rétt fyrir lok síðasta þings, en þar varði hann síðustu mínútum sínum til að mæra hv. þm. Ingu Sæland úr Flokki fólksins og bera lof á hennar hjartnæmu störf sem blasa við öllum. Það er ekki bara eldur guðs sem brennur í gegnum þingmanninn heldur talar Inga Sæland beint frá hjartanu svo allir taka eftir og komast jafnvel við eins og hún gerði sjálf í ræðu sinni síðast þegar hún tók að ræða um börn sem alast upp við fátækt, og hún hefur beina persónulega reynslu af. Þá nefni ég hvernig Gísli Rafn Ólafsson, hv. þingmaður Pírata, varð fyrstur til að hugga þingmanninn, sýna henni samúð og samhygð og hvernig hann tekur hér undir mál okkar í Flokki fólksins líkt og Halldór Auðar Svansson hefur einnig gert. Ég vil þakka þeim af heilum hug og bæta því við að lengi býr að fyrstu gerð og að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.

Virðulegi forseti. Af því að nú líður að kvöldi getum við farið aðeins frjálslegar í lok þessa málflutnings, bara örstutt. Það gladdi mig að fræðast um það að Gísli Rafn Ólafsson er afabarn eins merkasta alþingismanns Íslandssögunnar, Einar Olgeirssonar, mikils foringja. Halldór Auðar Svansson er sonur míns fyrrum prófessors í Háskóla Íslands, Svans Kristjánssonar og Auðar Styrkársdóttur. Allt gladdi það mig þegar ég kynntist síðan þessum góðu mönnum af jafn góðu og ég lýsi hér. Það gladdi mig líka að systir Helga Hrafns Gunnarssonar er sjálf Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, einn sex þingmanna Pírata hér í þinginu, og faðir þeirra er auðvitað samferðamaður minn til margra ára, einn fremsti hljóðmeistari Íslandssögunnar, Gunnar Smári Helgason. Nú erum við komin út fyrir hefðbundið tal í ræðustól en ég gat ekki látið hjá líða, um leið og ég óska Tómasi Andrési Tómassyni hjartanlega til hamingju með þetta frábæra frumvarp, sem ég trúi ekki öðru en að við afgreiðum, að þakka hv. þingmönnum Pírata fyrir atfylgi sitt og lýk ég máli mínu þar með.