Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

sjúkratryggingar.

40. mál
[18:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (tannlækningar og tannréttingar vegna afleiðinga meðfæddra galla). Ef maður les þetta frumvarp þá trúir maður ekki að maður sé staddur í þingsal árið 2022, í tómum sal, að mæla fyrir frumvarpi til að taka á þessum meðfæddu göllum barna sem fæðast með klofinn góm eða skarð í vör.

Ég talaði um ótrúlega heimskulegt kerfi hér áðan en ég held að það að hafa reglugerð og lögin eins og þau eru í dag sé heimsmet í vitleysu. Ég skil ekki tilganginn á bak við það að segja við barn með meðfæddan galla að gallinn hjá því, klofinn gómur eða skarð í vör, sé einhvern veginn ekki réttur. Þegar þetta mál kom hingað í þingið á sínum tíma og átti að leiðrétta það með reglugerð þá fékk maður einhvern veginn á tilfinninguna að þó að reglugerðin væri að reyna að taka á þessu þá væri það ekki hægt vegna þess að einhvern veginn fundu Sjúkratryggingar það út að þarna væri ekki nógu nákvæm lýsing á þeim galla sem barnið fæddist með. En til hvers í ósköpunum þarf að lýsa nákvæmlega þeim galla sem barnið er með? Er ekki nóg að barnið sé með galla? Og er það ekki nóg að þessi galli valdi því vanlíðan og óþægindum? Þarf að lýsa því? Nei, það þarf bara að laga það og sjá til þess að Sjúkratryggingar Íslands borgi það sem þarf að gera til að laga þennan galla hjá viðkomandi barni. Þetta er svo einfalt að við eigum ekki að þurfa að standa hér í þessum ræðustól og reyna að leggja fram frumvarp til að fá núverandi ríkisstjórn til að sjá til þess að barn sem þjáist og er veikt vegna meðfædds galla þurfi ekki að gera það. Foreldrar þess lenda í stökustu vandræðum með að fá gallann lagaðan og ef þau vilja gera það þá kostar það kannski svo miklar fúlgur fjár að þau standa ekki undir því. Hvað á þá að gera? Þarf þá barnið að þjást? Ég segi: Þetta er okkur til háborinnar skammar og það er eitthvað að í okkar þjóðfélagi ef þetta frumvarp verður ekki samþykkt og það strax.