Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Jakob Frímann Magnússon) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að flytja mitt fyrsta frumvarp, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, farsímasamband á þjóðvegum. Flutningsmenn eru auk mín Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland og Tómas Andrés Tómasson.

Þetta frumvarp er byggt á eigin reynslu af ferðum um landið sem ég hef stundað um áratugaskeið. Ég var furðu lostinn yfir því að hin hátæknivædda íslenska þjóð, sem er talin fremst í flokki með að tæknivæðast, tölvuvæðast, farsímavæðast og nútímavæðast, skuli virkilega árið 2022 að vera á þeim stað að það er ekki hægt að halda uppi eðlilegu símasambandi á ferðum um landið. Tíu mínútum eftir að þú ekur út frá Akureyri þá rofnar sambandið við þann sem talað er við, tíu mínútum eftir að farið er frá frá Siglufirði, sömuleiðis með Egilsstaði. Í tilfelli Egilsstaða ert þú kominn á, við skulum segja mesta eða algengasta slyssvæði þess nágrennis. Þannig að þetta er spurning um öryggi. Þetta er spurning um nútímavæðingu, sjálfsagða og löngu tímabæra. Það getur ekki verið ofvaxið þeirri vel stæðu velferðarþjóð sem Ísland er að tryggja að það sé samfellt síma- og netsamband landið um kring, rétt eins og vegasamband, rétt eins og rafsamband, og þó fyrr hefði verið. Það furðulega er að sé maður að tala til Bandaríkjanna eða við útlönd þá helst sambandið mun betur einhverra hluta vegna.

Ég geri örstutta grein fyrir því sem hér er óskað eftir og ég vonast sannarlega til að megi ganga eftir og taka gildi. Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 19. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo:

Til alþjónustu telst einnig óslitið farsímasamband á þjóðvegum, sbr. 8. gr. vegalaga, nr. 80/2007.

2. gr. Á eftir 1. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:

Fjarskiptastofu er heimilt að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að koma upp og reka fjarskiptavirki í því skyni að tryggja farsímasamband á þjóðvegum, sbr. 19. gr.“

Í 3. gr. stendur: Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2022. Við þurfum því að hafa hraðar hendur.

Í greinargerð segir: Ísland er af náttúrunnar hendi erfitt yfirferðar. Jöklar, ár, fjöll og sandar mynda áskoranir sem erfitt er að sigrast á. Aðeins er hálf öld síðan lokið var við gerð hringvegarins. Þá minnir náttúran reglulega á sig með veðurofsa, jarðhræringum og eldsumbrotum með þeim afleiðingum að brýr fljóta í þúsund molum á haf út. Nauðsynlegt er að tengja landið með traustum samskiptaleiðum. Það er ekki nóg að byggja upp vegakerfi, heldur þarf líka að tryggja fjarskipti á vegum landsins. Það ógnar mjög öryggi vegfarenda þegar ekki er hægt að treysta á fjarskiptasamband. Undanfarna áratugi hafa fjarskipti batnað mjög á landsbyggðinni, en þrátt fyrir það finnast enn víða gloppur. Tæknin er til staðar til að stoppa upp í götin en fjarskiptafyrirtæki virðast hafa lítinn áhuga á því mikilvæga verkefni, a.m.k. enn sem komið er. Ef fjarskiptafyrirtæki sjá sér ekki hagnaðarvon í því að tryggja öryggi á vegum landsins þá verða stjórnvöld að grípa inn í og útrýma þeim markaðsbresti.

Þegar eru í lögum ýmsar heimildir fyrir stjórnvöld til að grípa inn í þegar einkaaðilar uppfylla ekki samfélagslegar skyldur sínar, hafi þær kvaðir á annað borð verði lagðar á viðkomandi fyrirtæki. Sem dæmi þá getur Fjarskiptastofa lagt þá kvöð á fjarskiptafyrirtæki að bjóða neytendum alþjónustu eða veita samkeppnisaðilum aðgang að fjarskiptakerfum með samtengingu.

Frumvarp þetta leggur til að það verði hluti af alþjónustu fjarskiptafyrirtækja að tryggja óslitið farsímasamband á þjóðvegum landsins. Til að tryggja eftirfylgni verði Fjarskiptastofu veitt heimild til að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að koma upp og reka fjarskiptavirki á nánar tilteknum stöðum, eftir þörfum. Í fundargerðum þeirra funda sem haldnir voru í tengslum við gerð grænbókar um fjarskipti má sjá fjölda athugasemda um stopult farsímasamband frá fulltrúum landsbyggðarinnar. Í fundargerðum frá samráðsfundum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2021 er hægt að fletta upp þessum athugasemdum.

Þetta er löngu tímabært mál. Þetta er hluti af sjálfsögðum lífsgæðum, sjálfsögðum réttindum þeirra sem byggja þetta land, landið um kring. Það er von mín að undir þetta verði vel tekið og auðvitað þarf að fylgja eftir og taka málið til umræðu í viðeigandi nefnd, umhverfis- og samgöngunefnd sem er með þessi mál á sínum borðum. Ég vonast sannarlega til þess að í kjölfarið náðist um þetta almenn sátt öllum til heilla og framdráttar.