Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[18:59]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði bara að koma hingað upp og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lagt fram sitt fyrsta frumvarp og ég vil taka undir það sem þar kemur fram. Sú atvikalýsing sem hv. þingmaður fór hér með, af slæmu farsímasambandi á norðausturhluta landsins, er nokkuð sem við sem búum úti á landi þekkjum því miður allt of vel, og er algerlega óboðlegt árið 2022, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég tek algerlega undir það sem þingmaðurinn kemur hér fram með. Það er í raun með ólíkindum ef maður hugsar til þess að á sama tíma og við erum að koma upp kerfi sem heitir 5G — sem er afskaplega jákvæð og góð þróun og ég vona að það gangi sem hraðast fyrir sig, það er mikil þörf á því — sé ekki farsímasamband og stopult símasamband víða á landsbyggðinni. Það er náttúrlega einhver skekkja í því sem þarf að leiðrétta og við eigum að sjá sóma okkar í að gera það. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því.

Það er hins vegar eitt sem mig langar að benda á í þessu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað, eða þau, í þeirri vinnu sem lögð var í þetta frumvarp, Tetra-fjarskiptabúnaðinn. Það er ekki síður mikið öryggismál að Tetra-búnaður, sem er fjarskiptakerfi lögreglu, sjúkraflutningamanna og annarra viðbragðsaðila, sem sömuleiðis er gloppótt á landsbyggðinni, sé öruggur og tryggur. Þessir aðilar eru oft og tíðum að vinna á þeim svæðum þar sem sambandið er ekki tryggt og þeirra störf eru gerð afskaplega erfið ef svo er ekki.