Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[19:03]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það var akkúrat þetta sem ég var að leita eftir og var að velta fyrir mér, þegar ég las frumvarpið, hvort ekki væri lag, ef áfram verður unnið að málinu, að bæta þessu inn í það, að þessir Tetra-sendar séu tryggir. Þetta fer nefnilega saman. Þetta snýst um það að koma þessum sendum upp og koma rafmagni á þessa staði. Án rafmagns virka sendarnir ekki og þá fer það ágætlega saman að farsímasendarnir og Tetra-sendarnir séu settir upp samhliða. Það er þá verkefni sem þarf að vinna með Neyðarlínunni. Ég veit að bæði Neyðarlínan og fjarskiptafyrirtækin hafa verið að vinna í því að kortleggja þessa svörtu bletti og ég þekki það sjálfur að lögreglan hefur verið að gera það í sínum umdæmum, að fara um vegi og athuga hvar þessir blettir eru, þannig að það ætti að liggja fyrir hvar þetta er. Það á því ekki að vera mikið mál, fyrir þá sem fara í þetta verkefni, að finna hvar þessir blettir eru og reyna þá að þétta netið þannig að þessar gloppur sem við tölum um séu ekki til staðar. Þá erum við líka komin að rafmagninu, sem er tengt þessu. Oft erum við að tala um að varaafl dugi skammt. Við höfum ítrekað lent í því í slæmu veðri að rafmagn fer af þessum sendum og varaaflið tikkar inn en dugar kannski ekki nema í sólarhring.(Forseti hringir.) Þar sem veður eru válynd er kannski erfitt að komast að þessum stöðum til að hlaða. Ég hvet hv. þingmann til dáða í þessu máli. Við sjáum allt of oft (Forseti hringir.) að í erfiðum aðstæðum og á erfiðum tímum erum við sambandslaus og það er ekki boðlegt.