Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[19:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um fyrsta frumvarp hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar og eiginlega hittir hann naglann á höfuðið í síma- og fjarskiptamálum, þ.e. að við skulum árið 2022 vera í því ástandi að farsímasamband sé gloppótt á þjóðvegum landsins. Hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson, sem kom í andsvar við hann, kom að öryggismálum, Tetra, og það segir sig eiginlega sjálft að það á að vera sjálfsagt mál að setja það inn sem breytingartillögu við þetta frumvarp, á að vera minnsta mál í heimi. Það á að vera eðlilegt að vera í sambandi, það er óeðlilegt að vera ekki í sambandi. Ég hef líka orðið var við þetta þegar ég hef verið að keyra um þjóðvegina og það hefur valdið erfiðleikum þegar ekki er samband. Ég var nú í lögreglunni á sínum tíma og þá lentum við oft í furðulegustu málum, sambandið gat verið svo gloppótt að menn gátu lent í þeirri stöðu að vera sambandslausir, sem er auðvitað grafalvarlegt öryggismál hjá lögreglunni. Á sama tíma sendum við geimfar til tunglsins og við erum í sambandi við það. Við erum með gervihnetti út um allt, við erum í sambandi við þá. En við getum ekki verið í sambandi þegar kemur að öryggismálum lögreglu eða á hringferð um landið eða á hálendinu. Það segir okkur að það er eitthvað að og ég vona að þetta frumvarp verði til þess að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og við leysum þetta. Og með rafmagnið eða rafmagnsleysið, hvernig þau mál eru og þessir dauðu blettir í kerfinu — ég held að það sé engin spurning að það er hægt að leysa það í dag. Ég held að það sé ekki stórt vandamál. Horfum á lausnir. Þetta er bara frábært mál og ég held að allur þingheimur geti verið sammála um að við komum þessu í lag.