Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða rammaáætlun, skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í áætluninni skal í samræmi við markmið fyrrnefndra laga lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða, og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Tillagan sem ég mæli fyrir hér er lokapunkturinn á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar sem hefur átt sér stað frá árinu 2013 og lauk með skýrslu verkefnisstjórnar til ráðherra í ágúst 2016. Þetta er í fjórða sinn sem tillagan er lögð fram á Alþingi og það er von mín að þingið nái að fjalla efnislega um tillöguna og afgreiða hana í vor.

Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn áætlunarinnar hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.

Þann 14. janúar 2013 var gildandi rammaáætlun samþykkt á Alþingi og í kjölfarið skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn áætlunarinnar og vinna hófst við 3. áfanga. Ég ætla nú að gera nánari grein fyrir málsmeðferð vegna vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar. Umfjöllun verkefnisstjórnar má skipta í tvennt. Fyrst var forgangsmeðferð átta virkjunarkosta sem lauk með því að Alþingi samþykkti 2015 að virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun yrði færður úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk. Samhliða umfjöllun um þá virkjunarkosti sem voru í forgangsröðun vann verkefnisstjórn að umfjöllun um þá virkjunarkosti sem henni voru sendir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Verkefnisstjórn 3. áfanga skipaði fjóra faghópa til að fara yfir virkjunaráform, meta kosti út frá mismunandi þáttum, sem ég geri betur grein fyrir hér á eftir, í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Faghópar 1 og 2 voru skipaðir 16. apríl 2014 og tóku til starfa í maí 2014. Verkefni faghóps 1 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til náttúru, menningarminja, landslags og víðerna. Verkefni faghóps 2 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til annarrar nýtingar en orkuvinnslu, svo sem vegna ferðaþjónustu, útivistar og landbúnaðar. Faghópur 3 var skipaður 9. júlí 2015 og tók til starfa í ágúst 2015. Verkefni hans var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn taldi æskilegt og mögulegt að leggja mat á. Faghópur 4 var svo skipaður 12. október 2015. Verkefni hans var að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag.

Eins og kveðið er á um í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, kynnti verkefnisstjórn drög að tillögum sínum og gaf stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum færi á að veita umsagnir um fram komin drög. Þetta samráðsferli stóð í þrjá vikur frá 31. mars til 20. apríl 2016. Í því umsagnarferli bárust verkefnisstjórn 18 umsagnir frá 15 aðilum. Í kjölfarið á umsagnarferlinu vann verkefnisstjórn að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta sem fóru í lögbundið tólf vikna samráðsferli sem stóð frá 11. maí 2016 til 3. ágúst 2016. Í síðara samráðsferlinu bárust verkefnisstjórn 69 umsagnir frá alls 44 aðilum. Endanlegar tillögur verkefnisstjórnar bárust ráðherra 26. ágúst 2016. Í þeim er lögð til flokkun alls 82 virkjunarkosta.

Eins og ég minntist á í upphafi þá er þetta í fjórða skiptið sem tillagan sem hér er til umfjöllunar er lögð fram og er hún lögð fram óbreytt frá fyrri tillögum. Þó hafa verið felldar úr tillögunni þeir virkjunarkostir í verndarflokki sem hafa verið friðlýstir í samræmi við lög um rammaáætlun og samþykkt Alþingis en umræddir kostir eru allir í verndarflokki gildandi áætlunar. Ég ætla ekki hér að fara yfir rökstuðning fyrir flokkun hvers virkjunarkosts fyrir sig heldur vísa þar til skýrslu verkefnisstjórnar til ráðherra og þá sérstaklega kafla 9.3 á bls. 165.

Í framhaldi vil ég ítreka hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda um mikla hagsmuni og málefni sem hafa valdið miklum átökum í okkar samfélagi. Það er nefnilega mikilvægt að tapa ekki sjónum af því að rammaáætlun er ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu virkjunarkosta. Hún á þannig að gefa ákveðna heildarmynd en á ekki fara niður á það stig að fara í of ítarlegar greiningar á smærri atriðum. Tillagan er ákveðin málamiðlun til að leita jafnvægis milli sjónarmiða verndunar og sjónarmiða nýtingar. Að auki er í tillögunni stór biðflokkur þar sem er að finna virkjunarkosti sem lagt er til að skoðaðir séu betur í framtíðinni. Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt hér í þessari umræðu að fjalla á mjög djúpstæðan hátt um einstaka valkosti sem fram koma í tillögunni heldur að brýna þingmenn til að horfa á heildarmyndina og þeirra metnaðarfullu markmiða sem stjórnvöld hafa sett sér á sviði loftslagsmála. Vissulega er ég að leggja hér fram tillögu sem á sér langa sögu og við erum eflaust öll sammála um að við hefðum viljað hafa hlutina einhvern vegin öðruvísi og vissulega er það flókið verkefni að fá hér inn í þingið þessa tillögu sem er nokkuð komin til ára sinna. En að mínu mati höfum við engan valkost, þetta er einfaldlega viðfangsefnið sem við þurfum í sameiningu að takast á við og leysa úr.

Valkostirnir sem ég stóð frammi fyrir þegar ég kom inn í ráðuneytið voru tveir. Í fyrsta lagi að hefja vinnu við að breyta 3. áfanga. Sú leið hefði tekið langan tíma og niðurstaðan hefði alltaf farið fyrir þingið eins og lög gera ráð fyrir. Hin leiðin, og sú sem ég vel að fara, er að leggja málið fram í þeirri mynd sem lagt hafði verið upp með og fela þinginu að fjalla um málið og taka efnislega afstöðu til tillögunnar í kjölfar þinglegrar meðferðar.

Vinna að rammaáætlun er viðvarandi verkefni, afgreiðsla 3. áfanga er því ekki endanleg niðurstaða varðandi hvar á að nýta og hvar á að vernda til allrar eilífðar, heldur er þetta verkefni sem heldur áfram. Ég vil taka fram að vinnu við 4. áfanga rammaáætlunar miðar mjög vel og 5. áfangi er farinn af stað en vinna við þessa tvo áfanga verður samþætt. Afrakstur þeirrar vinnu mun fara í almenna kynningu og umsagnarferli og í framhaldinu koma hingað til Alþingis til umfjöllunar og afgreiðslu.

Staðreyndin er sú að við höfum ekki samþykkt rammaáætlun í níu ár. Frá þeim tíma hefur mjög margt breyst. Við verðum að horfa á hlutina í samhengi. Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, þekkingu á nýjum möguleikum til orkuöflunar hefur fleygt fram og ný tækni hefur litið dagsins ljós frá því að vinna við 3. áfanga rammaáætlunar var hafin árið 2013. Sem dæmi má nefna að vindorka var ekki áberandi valkostur þegar rætt var um orkuöflun í upphafi vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar. Nú er staðan gerbreytt varðandi þekkingu, tækni og hagkvæmni slíkra valkosta. En engar rósir eru án þyrna og ræða þarf það mál sérstaklega. Skoða þarf áhrif á lífríki, hvaða áhrif slíkir kostir hafa á ferðaþjónustu og hvernig allur almenningur á Íslandi á að njóta þess ávinnings sem þær lausnir bjóða upp á. Almenningur verður að njóta góðs af því að við búum á grænu landi. Við eigum að huga að því hvernig verður borgað fyrir nýtingu þeirrar auðlindar sem vindurinn er.

Við verðum að hafa í huga að við ætlum okkur að uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér í loftslagsmálum. Þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg varða á þeirri vegferð. Hún veitir okkur líka leiðsögn um forgangsröðun og á hvaða svæðum ætti alls ekki að vinna að orkuöflun, byggt á mati sérfræðinga á náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru til umfjöllunar og mati á mögulegum áhrifum á aðra nýtingu, svo sem ferðaþjónustu. Eðlilegt er að þingið taki mið af þessu mati. Öflun orku getur haft veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru landsins og okkur ber að stíga varlega til jarðar og byggja á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma.

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er lögð mikil áhersla á orkuskipti í samgöngum. Sett hefur verið fram sérstök aðgerðaáætlun í orkuskiptum þar sem fram kemur að stefnt er að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 40% árið 2030. Til að ná þessu marki er nauðsynlegt að tryggja gott samstarf hins opinbera, fyrirtækja og almennings í landinu. Ég hef sett af stað vinnu að grænbók um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Þjóðarátaks er þörf í þágu orkuskipta. Rafvæðing samgöngukerfisins verða þriðju umfangsmiklu orkuskiptin sem Íslendingar ganga í gegnum. Áður höfum við gengið í gegnum fyrstu orkuskiptin sem fólust í rafvæðingu húsa, heimila og atvinnustarfsemi með hagnýtingu vatnsaflsins og síðar gengum við í gegnum önnur orkuskiptin þegar jarðhiti leysti kol, olíu og aðra kolefnisbundna orkugjafa af við húshitun. Fyrir um 50 árum skall á olíukreppa og heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um 70% á stuttum tíma. Við Íslendingar vorum á þeim tíma nærri hálfnuð með það verkefni að hita heimili landsins með jarðhita. Orkustefna var mótuð þar sem lögð var áhersla á að draga úr innflutningi olíu en auka í staðinn hlutdeild innlendra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma. Við það fór af stað átak í jarðhitaleit og nýjar hitaveitur voru byggðar víða um land. Sú ákvörðun að ráðast í hitaveituvæðinguna á sínum tíma hefur fært þjóðinni ábata sem við búum að enn í dag. Sá þjóðhagslegi ábati er bæði efnahagslegur, umhverfislegur og samfélagslegur. Orkustofnun telur að með notkun endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og framleiðslu rafmagns komumst við hjá því að losa um 20 milljónir tonna af CO2 árið 2020, miðað við að nota jarðefnaeldsneyti. Til samanburðar þurfum við að minnka útblástur um 1 milljón tonna af CO2 fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í þessu samhengi má einnig benda á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2019 nam um 4,7 milljónum tonna af CO2 ígilda, án losunar frá LULUCF, samkvæmt losunarbókhaldi Íslands 2021.

Íslendingar eru í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins en svara þarf þeirri spurningu hvaðan orkan sem þarf til þriðju orkuskiptanna eigi að koma. Reynsla okkar Íslendinga af orkuskiptum kennir okkur að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Sagan kennir okkur einnig að kreppur leiða af sér ný tækifæri. Líkt og olíukreppan fyrir 50 árum leiddi af sér stórkostlegar breytingar á okkar samfélagi munu þær áskoranir sem blasa nú við okkur vegna loftslagsvárinnar leiða af sér nýjar lausnir sem munu breyta samfélaginu okkar til hins betra. Fram undan er þjóðarátak og uppbyggingarstarf sem felur í sér mörg tækifæri til nýsköpunar sem tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum. Nefna má framleiðslu rafeldsneytis frá glatvarma, framleiðsla metanóls og vetnis frá afurðum jarðvarmavirkjana sem dæmi um græn verkefni framtíðarinnar. Einnig má aldrei gleyma því að við búum í dreifbýlu landi og ef við ætlum að segja við íbúa einstakra landsvæða að þeir fái ekki græna orku þá erum við að segja við það fólk að það verði ekki með í þeirri grænu byltingu sem er fram undan. Það gengur ekki upp, virðulegi forseti, að mínu mati.

Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við þá aðila sem standa í framlínunni í glímunni við að finna lausnir til að leysa loftslagsvandann. Tækniframfarir, nýsköpun og skapandi hugsun fela í sér tækifæri sem munu leiða af sér breyttan og betri heim. Það er ég sannfærður um og við Íslendingar eigum ekki að láta okkar eftir liggja og virkja hugvitið til að skapa lausnir framtíðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef þá rakið meginefni þessarar tillögu. Ef þingmenn vilja gera breytingar á þeirri tillögu sem hér er til umræðu þá er mikilvægt að hafa megininntak laga um verndar- og orkunýtingaráætlun að leiðarljósi; að halda jafnvægi á milli nýtingar og verndunar og að ná sátt um þessi þjóðfélagslega mikilvægu mál okkur öllum til heilla. En ég vil taka fram að lausnin á erfiðum viðfangsefnum getur ekki verið sú að setja alla kosti í biðflokk og fresta því að taka ákvarðanir um kosti sem eru tilbúnir til mats. Við verðum að hafa næga orku til að ná að framkvæma þau orkuskipti sem fram undan eru og gæta að sama skapi að því að vernda þá kosti sem mikilvægir eru út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Ég bið hv. þingmenn að hafa þessi sjónarmið í huga í þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.