Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:20]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gerði bara ráð fyrir því að hv. þingmaður og aðrir þingmenn hefðu skoðanir á þessu og það þyrfti ekkert að nesta þá sérstaklega til þess. Stefna stjórnvalda og það sem liggur til grundvallar í þessu eru auðvitað loftslagsmarkmiðin, það er það sem liggur til grundvallar. En síðan munu menn hafa allra handa skoðanir á þessu máli í heildarsamhenginu. Aðalatriði málsins er þetta: Við eigum, Alþingi Íslendinga, að fá hér, ekki minna en á fjögurra ára fresti, áætlun sem þessa og við höfum ekki klárað hana í níu ár. Ég held hins vegar að það sé afskaplega skynsamlegt líka þegar við erum að gera þetta, og í rauninni ómögulegt annað, að líta á stóru myndina. Ég held að menn hafi alltaf átt að gera það. Í rauninni er hugmyndin á bak við þessa umgjörð að menn líti á stóru myndina. En þá var að vísu ekki kominn þessi mikilvægi þáttur sem loftslagsmarkmiðin eru, þannig að það er í ofanálag. Þetta var alltaf nauðsynlegt en er alveg sérstaklega nauðsynlegt núna.