Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi að það væri náttúrlega alltaf hægt að segja að við gætum frestað máli og tekið það til skoðunar þegar fleira lægi fyrir og svoleiðis. Það er auðvitað rétt, þetta er eitthvað sem oft er sagt um ýmis mál sem við tökum hér til umfjöllunar. En þá er kannski rétt að halda því til haga að þessu máli hefur verið frestað dálítið oft af ríkisstjórnum. Ég fór yfir það hér hvernig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frestaði málinu frá árinu 2013 til 2015 til þess eins að leggja það fram eftir allt of stutta og óvandaða vinnu haustið 2016. Það er skjalið sem við fáum hér endurunnið í dag.

Svo er kannski rétt að nefna bara síðustu ríkisstjórn sem sat á þessari tillögu óbreyttri árin 2017–2020, þegar hún var loksins lögð fram, vegna þess að það ríkti eitthvert ógnarjafnvægi á milli stjórnarflokkanna þannig að það var bundið saman í knippi rammaáætlun, hálendisþjóðgarður og Þjóðgarðastofnun. Þessi þrjú mál voru einhvern veginn gerð að systrum sem yrðu að leiðast í gegnum ríkisstjórnina þannig að hver flokkur fengi eitthvað fyrir sinn snúð. Hvaða afleiðingar hafði þetta? Þetta drap öll þrjú málin. Stjórnarflokkarnir á síðasta kjörtímabili bera ábyrgð á fjögurra ára frestun rammaáætlunar. Ef við tökum einn þeirra út fyrir sviga þá bera tveir stjórnarflokkanna ábyrgð á eiginlega öllum þeim tíma sem er liðinn frá því að rammaáætlun var síðast samþykkt hér á Alþingi.

Þannig að jú, það er alveg hægt að fresta hlutum en við skulum ekki gleyma því að það er núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þeirri miklu frestun sem orðin er á þessu máli. Maður lifandi, hvað það hefði verið gott ef hún hefði nýtt þennan tíma í að laga plaggið aðeins frá því sem það var haustið 2016.