Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:56]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um flest það sem hún lagði fram. Það var misráðið að setja þetta í einhvern vafning með hálendisþjóðgarði og öðru slíku. Við hefðum átt að læra það í hruninu að vafningar eru ekki til heilla, þeir settu heiminn á hausinn fyrir örfáum árum. Er málið ekki líka það að við þurfum að koma þessu dreifikerfi okkar í gagnið? Ákallið um aukna græna orkuframleiðslu er klárlega til staðar. Við þurfum að búa til stefnumörkun fyrir Landsvirkjun. Hún á ekki bara að vera í hendi forstjóra. Við þurfum líka að huga að því að gera þetta ekki svo stórkarlalega eins og gert hefur verið í gegnum tíðina. Nú er hin mikla búgrein ferðaþjónustan með stærstu ósnortnu víðerni Evrópu sem aðdráttarafl. Gerum það fallega sem við gerum, veljum af kostgæfni og höldum áfram að veita Alþingi frelsi til að taka þetta mál fyrir. Ég fagna tóni utanríkisráðherra um þjóðarsátt um auðlindir og þá helst allar auðlindir.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk.)