Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast aðeins á vindorkuna, bara almennt. Þá er kannski rétt að rifja upp að á síðasta þingi var einmitt lagt fram frumvarp, og þingsályktunartillaga til hliðar við það, varðandi almennilegan lagaramma utan um vindorkuna. Lög um rammaáætlun ná ekkert almennilega utan um þess lags virkjanakosti og úr því þyrfti að bæta. Þetta er enn eitt málið sem lenti í hakkavél á milli stjórnarflokkanna. Það kom ekki fram fyrr en í apríl á síðasta ári, rétt fyrir þinglok, strandaði bara í nefnd eins og reyndar eiginlega öll náttúruverndarmál ríkisstjórnarinnar, að mér sýnist, sem segir nú einhverja sögu. Þetta hefur ekki verið ofarlega á forgangslistanum hjá þáverandi ríkisstjórn og þó að vikið sé að þessu í núgildandi stjórnarsáttmála velti ég því fyrir mér hvort það hafi jafn mikið vægi og hálendisþjóðgarður hafði í sáttmála síðustu ríkisstjórnar.