Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, það vantar lagarammann um vindorkuna. Þess vegna var ég að inna hæstv. ráðherra eftir því. Ég gat ekki fundið að það væri frumvarp eða tillaga um það á þingmálaskrá ráðherrans. Nú kann að vera að það sé á leiðinni en það er alla vega ekki á þeirri sem fyrir liggur á vef þingsins. Það er mjög mikilvægt að taka þessa umræðu, lagaumhverfið og hvernig hægt er að gera slíkar áætlanir, í samhengi við annað sem við ræðum hér. Ég hygg að þetta sé enn eitt málið sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að rýna mjög vel og ekki bara að huga almennt að vindorkunni heldur einnig að lagarammanum eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson segir, og þá kannski líka að reyna að stuðla að því að hægt sé að ná skrefum fram á við í þessum málum á þessu þingi. Og minni hlutinn verður þá bara að taka það að sér.