Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:09]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þar hitti hv. þm. Björn Leví Gunnarsson naglann á höfuðið. Það skiptir nefnilega máli að lagaramminn sé til staðar, að eigendastefnan sé skýr og miklu betri en sú sem við búum við núna og að forgangsröðun kosta og pólitísk forgangsröðun okkar sem hér erum liggi fyrir, þ.e. í hvað viljum við nýta orkuna, til hvers erum við að virkja? Erum við að virkja til að stinga einu stóru álveri í samband eða erum við að virkja til þess að búa til fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi? Þetta vantar allt saman. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Og það er bara þannig, eins og orkumálastjóri hefur bent á, að þó svo að við gætum byrjað á nýrri virkjun á morgun þá er ekkert sem segir að orkan sem úr henni kæmi færi í hin títtnefndu orkuskipti sem hér er rætt um alla daga.