Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir framsöguna. Ég hlustaði með athygli á þann fyrirvara sem þingflokkur Framsóknar hefur gert við málið í ljósi þess að mér finnst ákveðin samsvörun vera á milli þessa fyrirvara og þess sem fram kemur í stjórnarsáttmála um afgreiðslu rafmagns, þ.e. að fjölga biðkostum, og síðan þess sem hv. formaður Framsóknarflokksins sagði í samtali við mig í þingsal fyrir einhverjum dögum um að hann gengi út frá því að ramminn yrði lagður fyrir þingið þannig að kostum í biðflokki yrði fjölgað. Hann talaði sem sagt eins og það sem er í stjórnarsáttmálanum yrði veruleikinn og svo stöndum við hér með óbreyttan ramma. Ég er að velta því fyrir mér hvort það beri að skilja þetta þannig að þingflokkur Framsóknar hefði viljað sjá afgreiðslu stjórnarflokkanna á rammanum öðruvísi, að þeir hefðu viljað sjá breytingu gerða og síðan rammann lagðan fram í breyttri mynd.

Ég er að reyna að átta mig á því hvaða vinnulag þingmenn Framsóknar vilja sjá á þessu máli. Munu þeir, og nú vísa ég ekki síst í hv. þingmann sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd, beita sér fyrir því þar að farið verði í að fjölga kostum í biðflokki? Eða mun þingflokkurinn, ef að líkum lætur, og þá sérstaklega hv. þingmaður, vera opinn fyrir því að mögulega taki þessi útgáfa af rammanum breytingum í einhverja aðra átt, svolítið eins og mér fannst hæstv. ráðherrann tala fyrr í dag, sem sagt að allt væri opið og þingið ætti bara að ræða þetta vítt og breitt? Ef ég fæ að kjarna þetta: Hefur þingflokkur Framsóknar, eða hv. þingmaður ef hann vill bara tala fyrir sjálfan sig, (Forseti hringir.) þegar mótað sér skoðun á því hvaða breytingum hann vill sjá rammann taka í meðförum þingsins.