Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er, eins og aðrir hér, nokkuð hugsi yfir fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins. Ég skil ekki alveg hvernig þetta á að fara fram af því að ég hélt að málið hefði verið afgreitt og hefði stuðning stjórnarflokkanna, tillagan hefði stuðning stjórnarflokkanna, og m.a. þess vegna létum við hin hér það yfir okkur ganga að fjalla um sex ára gamlar tillögur, vitandi það að það er alls konar annað á borðinu og í undirbúningi hjá verkefnisstjórnum vegna 4. og 5. áfanga í rammaáætlun. Auðvitað er málið á forræði þingsins, það blasir algerlega við að það er það og verður það meðan það er hér hjá okkur. En við verðum að fá fram í þessari umræðu hvað það er sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilja breyta af því að flokkunin í tillögunni byggir á ákveðnum mati. Það eru ástæður fyrir því að ákveðnir kostir eru í verndarflokki og ákveðnir kostir eru í nýtingarflokki og svo er biðflokkur þar á milli. Hugmyndafræðin er sú að þú færir úr biðflokki í nýtingu eða vernd. En þú færir ekki úr verndarflokki í biðflokk. Þannig að ég verð að fá skýrari svör frá hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur um það hvers eðlis þessi fyrirvari er og hvort fyrirvarinn gangi gegn aðferðafræðinni sem lögð er til grundvallar í rammanum.