Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:00]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða og gagnleg og hófstillt og ágæt. Ég fagna því. Loftslagsváin er ein afleiðing þess að maðurinn hefur gengið freklega á gæði jarðar, eytt um efni fram og tekið vanhugsaðar ákvarðanir í sína þágu án þess að hugsa um heildarsamhengi hlutanna, hvað þá aðrar lífverur. Við ætlum okkur að ná fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og því þurfum við að taka öll skref að vel yfirlögðu ráði, leggja hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar til grundvallar og treysta náttúruvernd.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom mjög ágætlega inn á forsöguna, tilkomu þeirra laga sem þingsályktunartillagan byggir á, hvernig hún var til komin. Gott ef hv. þingmaður notaði ekki orðalagið „hér logaði samfélagið í illdeilum“. Og það er ekki mikill bragur á því. Ég vil trúa því og mér líður þannig, miðað við umræðuna undanfarið, og hugsanlega er það m.a. vegna þess hvert við erum komin í samtalinu um loftslagsmálin, að við séum að hugsa á öðrum brautum. Við erum ekki með stórkarlaleg áform, sem við sáum hér í eina tíð, um að ráðast í eina stóra meiri háttar virkjunarframkvæmd til að drífa t.d. stóra fabrikku. Ég vil trúa því og ég skynja það ekki í umræðunni, og mér þætti þá forvitnilegt að heyra það hjá öðrum hv. þingmönnum hvort það sé ekki réttur skilningur, að nokkur sé að tala um meiri háttar stóriðjuframkvæmdir. En orkuskiptin eru óumflýjanleg, við þurfum að takast á við þau og ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því.

Stjórntækið rammaáætlun er tæki sem sannarlega þarf að endurskoða og það er líka fyrirhugað eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hef hins vegar mjög mikla trú á þessu tæki og ég heyri að mörg hér inni hafa það. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum áherslu á mikilvægi vandaðrar málsmeðferðar af hendi Alþingis og við viljum að þess verði gætt að jafnvægi milli verndar og nýtingar, eins og tillaga verkefnisstjórnarinnar byggir á, þ.e. sú faglega vinna, endurspeglist í þeirri tillögu og það sé mikilvægur grunnur að framhaldsvinnu umhverfis- og samgöngunefndar sem fær verkefnið til sín. Stjórntækið byggir á því sem hefur komið fram hér í máli nokkurra þingmanna, þetta eru langtímasjónarmið og heildstætt hagsmunamat. Og af því að ég nefndi þörf á endurskoðun þess má e.t.v. líka segja, og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom inn á það, að það verði til í öðrum tíðaranda. En við höfum ekki fullkomlega gleymt honum. Og af því að hér hefur verið rætt um vinnu við svokallaða 4. og 5. áfanga, sem eru í höndum verkefnisstjórnar rammaáætlunar, er áhugavert að skoða þær hugmyndir sem fram eru komnar á þeim vettvangi, þ.e. hugmyndir um frekari orkuöflun. Þar sjáum við að veruleg slagsíða er í átt að vindorku og hugmyndirnar fara þverrandi með tilliti til jarðvarma og vatnsafls.

Mig langar þó að benda á, af því að hér hefur verið rætt um vinnu við 4. áfanga rammaáætlunar, að til eru á fyrrnefndri heimasíðu, ramma.is, sem hæstv. ráðherra kom inn á, drög að tillögu um flokkun virkjunarkosta frá verkefnisstjórninni í frétt frá 31. mars síðastliðnum. Þar voru 13 kostir teknir til mats. Það voru sjö kostir í vatnsafli, einn í jarðvarma og fimm í vindi. Bara af þessum vatnsaflskostum voru þrír svokallaðir stækkunarkostir, sem hér hafa líka verið til umræðu, og jarðvarmakosturinn er í raun bara stækkunarkostur líka. Hæstv. ráðherra nefndi það í fyrri ræðu að hann hefði á þingmálaskrá sem við sjáum fyrir vorið hugmyndir um breytingar á rammalöggjöfinni með tilliti til þess að hægt sé að horfa á þessa stækkunarkosti sem eina leið í að fanga og afla frekari orku.

Og talandi um tölur. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi tölur sem sannarlega hafa verið í umræðunni. Þær eru ættaðar frá, og ég vona að hv. þingmaður leiðrétti mig ef ég fer með rangt mál, Samorku þar sem sannarlega er talað um 1.200 MW, þar af 300 MW bara til orkuskipta á landi. Ég hef engar forsendur til að rengja ágæti þessara talna en ég tel að ákjósanlegt væri, líka í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag, að þær byggi þá líka á, og að við vitum og komum okkur saman um það, hver hin raunverulega orkuþörf er og þá til hvers. Ég kom inn á það í máli mínu í fyrri dagskrárlið hér í dag. En bara svo að við horfum á þessar tölur eru í þeirri rammaáætlun sem nú þegar er í gildi eitthvað um 600 MW í svokölluðum orkunýtingarflokki, ef við horfum á þetta í samhengi talnanna sem nefndar voru áðan. Í þeirri tillögu sem hér er erum við komin með megavöttin upp í rúm 1.420, ef mér reiknast rétt til. Þannig að allt tal um að við séum hér á vonarvöl og eigum í vandræðum fær ekki alveg við rök staðist, finnst mér.

Hins vegar ber líka að benda á það, og hæstv. ráðherra kom inn á það í sinni ræðu, að þó að hugmynd sé um að virkjunarkostur fari í nýtingarflokk þá er ekki samasemmerki þar á milli og að hann verði, þegar upp er staðið, nýttur. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson benti t.d. á nýlegar jarðhræringar á Reykjanesi og að það skyti skökku við að vera þar með kost í nýtingarflokki. Vissulega þarf að horfa til þeirrar framhaldsmálsmeðferðar sem á sér stað þegar kostur hefur verið afgreiddur á Alþingi í nýtingarflokk. Ekki nær það allt fram að ganga. Hinn endinn á þessu, sem ég tel líka afar mikilvægan, er þá verndarflokkurinn. Ef biðflokkurinn þarna á milli er þess eðlis að við erum að leggja mat á þá kosti sem hafa verið sendir inn og átta okkur betur á því hversu fýsilegir þeir eru með aðferðafræði rammaáætlunar til grundvallar þá segir mjög skýrt í lögunum að þeir kostir sem Alþingi afgreiðir í verndarflokk skuli friðlýstir gegn orkuvinnslu. Og ég legg áherslu á orðalagið „gegn orkuvinnslu“ vegna þess að það bar aðeins á því á síðasta kjörtímabili, þegar þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra tók til við það verk, sem hafði beðið æði lengi frá afgreiðslu þingsins, frá 2013, að framfylgja þessari ákvörðun þingsins, að þarna ætti þetta við um friðlýsingu almennt. En þetta snýst um að friðlýsa hlutaðeigandi svæði gegn orkuvinnslu. Og bara til upprifjunar fyrir þingheim þá voru í núgildandi rammaáætlun einir 20 virkjunarkostir sem fóru í verndarflokk. Af þeim hafa nú 14 verið friðlýstir, sjö kostir á fjórum svæðum í vatnsafli og aðrir sjö kostir á öðrum fjórum svæðum í jarðvarma. Þetta er afar mikilvægt til að framfylgja og klára uppleggið með tólinu sem rammaáætlun er. Ég vildi bara halda þessu til haga.

Hæstv. ráðherra hefur komið inn á það nokkrum sinnum að vinna sé í gangi við grænbók á vegum ráðuneytisins. Ég bind miklar vonir við að við sjáum þar saman tekið hver staðan í þessum málum er og ég held að það sé afar mikilvægt og fagna því inn í þessa umræðu í nefndinni að við fáum það á sama tíma. Hins vegar, af því að ég kom aðeins að því áðan að þegar maður skoðar þær virkjunarhugmyndir sem hafa verið í umræðunni þá eru teikn um stórkostleg áform þegar kemur að vindorku, get ég að einhverju leyti alveg tekið undir orð hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar um að við þurfum að hugsa mjög vel og átta okkur vel á því hvar við ætlum að koma vindinum fyrir. Sjálfum hugnast mér ekki að sjá hann á víð og dreif um allt landið. En hugmyndirnar sem fyrir liggja, og við vitum vel að þær verða ekki allar að veruleika, eru svolítið í ætt við fyrri tíð.

Ég hef trú á því og ég upplifi það þannig, svo að ég ljúki nú máli mínu, að við séum að færast á nýjan stað í þessari orðræðu og þar er það líkast til loftslagsváin, sem við verðum að bregðast við, sem fær okkur til að hugsa af skynsemi. Ég treysti okkur öllum til að láta skynsemina ráða við áframhaldandi meðferð málsins.