Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ekki byrjar það gæfulega. Ég ætlaði að byrja á að hrósa hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra fyrir að hafa lagt málið fram jafn snemma og raun ber vitni. Við fylgdumst með því á síðasta kjörtímabili að málið kom fram í fyrsta sinn á lokametrum á síðasta þingi þess kjörtímabils og markmiðið var augljóslega það að ekkert yrði úr því. Nú er málið komið fram jafn snemma og raunin er, fyrir miðjan febrúar á fyrsta þingi þessa kjörtímabils, og ég verð að viðurkenna að ég fylltist bjartsýni hvað það varðar að stjórnarflokkarnir ætluðu sér að klára þetta mál og afgreiða það þannig að það yrði loksins staðan að rammaáætlunarferlið væri ekki dautt sem ég er nú búinn að vera hræddur um í eitt eða tvö ár, hræddur um þetta fyrirkomulag sem var ætlað til sátta, til að leiða ágreining í jörðu og raða virkjunarkostum sem ætlunin er að nýta upp með þeim hætti að hægt væri að komast í framkvæmdir. Nú kemur málið fram. Það er mælt fyrir því í dag og báðir samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn gera fyrirvara við mál sem þeir eru nýbúnir að samþykkja í ríkisstjórn og í þingflokkunum. Þetta er eiginlega ótrúleg byrjun á einhverju sem maður vonaði að væri lokaspretturinn í þeirri hrakfallasögu sem málefni rammaáætlunar hafa verið undanfarin ár, og í allt of mörg ár. En eins og við þekkjum var þingsályktunartillagan sem liggur fyrir hér fyrst lögð fram árið 2016, eða það minnir mig.

Mér finnst því eiginlega eins og þingið allt, og sérstaklega fulltrúar meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd, fái það einhvern veginn í fangið að gera grundvallarbreytingar á rammaáætlun eins og hún er lögð fram í dag, breytingar sem talað er um í stjórnarsáttmála en ekki í þingsályktunartillögunni eins og hún var samþykkt í ríkisstjórn og afgreidd út úr þingflokkunum. Þetta eru algjör furða og eiginlega bara ámælisvert ef það á að teyma hv. þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd út í einhverja svona vinnu og maður getur ekki ályktað annað en svo að rammaáætlun sé á miklu verri stað en við töldum vera bara í morgun. Ég spurði reyndar um það í sérstöku umræðunni hér í morgun hvað mætti lesa í yfirlýsingar Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og hæstv. innviðaráðherra, þegar ráðherrann sagði í þinginu að horft væri til þess að fjölga kostum í biðflokki, færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk og væntanlega úr verndarflokki í biðflokk sömuleiðis. Ég held að hæstv. ráðherra umhverfis- og orkumála hafi ekki svarað því beint þannig að það verður eiginlega bara að ítreka þá spurningu: Er það þessi fyrirvari sem nú er kominn upp á yfirborðið og hver er akkúrat fyrirvari Framsóknarflokksins? Er fyrirvarinn sá að það eigi að stækka biðflokkinn? Fyrsti tíminn er bestur að það liggi fyrir.

Sömuleiðis verður þingið að fá að vita hver er fyrirvari þingflokks Vinstri grænna. Það hittir þannig á að ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fyrrverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, lagði málið fram á síðasta þingi nokkurn veginn upp á punkt eins og það liggur fyrir núna en auðvitað var í ljósi sögunnar aldrei ætlunin að klára það, það blasir við. Mér finnst skipta miklu máli að þingið sé upplýst um það á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Auðvitað er það þannig að með sex af níu mönnum í umhverfis- og samgöngunefnd þá stýra ríkisstjórnarflokkarnir því hvernig þetta mál klárast. Það velkist enginn í vafa um það. Ef verðmiðinn fyrir það að leggja málið jafn snemma fram — sem ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir — er sá að það verði tekinn einhver leikur í umhverfis- og samgöngunefnd til að lempa þingflokka Framsóknarflokks og Vinstri grænna þá er það ekki skemmtileg meðhöndlun á tíma þingmanna sem þar sitja. Ég læt þetta duga um þetta atriði í bili.

Tillagan liggur fyrir eins og hún var lögð fram á síðasta þingi og ég held að margra hluta vegna væri æskilegt að klára tillöguna í meginatriðum eins og hún liggur fyrir. Við þekkjum það, sérstaklega frá umræðunni fyrr í dag um stöðu raforkumála, að 4. rammaáætlun er mjög langt komin í sínu lögbundna ferli og ég held að þingið ætti þá að taka til umræðu í þeirri vinnu mögulegar lagfæringar og breytingar. Ég held að það væri skynsamlegt að koma ákveðinni festu undir það plagg sem hér hefur legið fyrir árum saman varðandi stefnumörkun stjórnvalda með því að samþykkja tillöguna óbreytta. Það stenst enga skoðun ef menn ætla að leggja það að jöfnu að færa kosti úr nýtingarflokki í biðflokk og að færa kosti úr verndarflokki í biðflokk því biðflokkurinn er auðvitað stopp. Það er ekkert að fara af stað sem er í biðflokki. Ég vil nefna það hér að það eru ekki brúkleg rök verði það rök fyrir því að færa kosti úr nýtingarflokki á seinni stigum. Staðreyndin er sú að t.d. hvað vatnasviðið varðar eru þrátt fyrir allt ekki nema sjö kostir í nýtingarflokki. Það er nú allt og sumt. Ef menn ætla að færa marga þeirra kosta úr nýtingarflokki í biðflokk verður orðinn heldur þunnur þrettándinn. Hvað háhitasvæðin varðar eru tíu kostir tilgreindir og sama á við hér, ef á að færa eitthvað af þeim í biðflokk þá styttist listinn ansi hratt.

Ef einhver þeirra kosta sem eru í dag í verndarflokki yrði færður í biðflokk þá er ekkert stórkostlegt að gerast með þeirri aðgerð. Það er bara kostur sem verður væntanlega færður aftur í verndarflokk í næsta hring þegar 4. rammaáætlun er tekin til meðferðar og samþykkt.

Ég vil þess vegna beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að fara helst ekki í þá vegferð að hringla í kostum með þessum hætti og hafandi það í huga að það virðist vera það sem fyrirvarar samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins ganga út á. Sérstaklega er það kannski athyglisvert í tilviki Framsóknarflokksins ef það er raunin. Auðvitað er það líka athyglisvert í tilviki þingflokks Vinstri grænna þegar við horfum til þess að ráðherra þess flokks lagði plaggið fram með nákvæmlega þessum hætti fyrir nokkrum mánuðum.

Að lokum er nauðsynlegt að halda því til haga að það eru fleiri mál á leiðinni inn í þingið. Það var áætlað að á þessum tímapunkti væri hæstv. innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, búinn að leggja fram mál sem heimilar breytingu á skipulagsutanumhaldi þegar raflínur þvera fleiri en eitt sveitarfélag. Allt verður þetta púsl í þessari stóru mynd og ég held að það væri gott fyrir þingið að fá það mál sem fyrst inn til að hægt sé að ræða þetta allt í einni samfellu. Ef við erum alltaf að horfa bara á lítið brot af heildarmyndinni verður þetta allt mjög brotakennt og samhengislítið og þá er ekki víst að þingmönnum sé ljós sá alvarleiki eða þau áhrif sem verða vegna mögulegra breytinga á rammaáætlun eins og hún er lögð fram hér í dag.