Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég missti nú af því þegar hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson sagði þetta en ef stjórnarsáttmálinn er orðinn einhver almennur fyrirvari, almennur „disclaimer“ gagnvart öllum þeim málum sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fram, þá er þetta samstarf orðið enn undarlegar samsett en var á liðnu kjörtímabili. Þá gátu menn auðvitað, og gerðu það lengi framan af, skákað í því skjóli að það hefði ekki verið neitt annað í stöðunni en samstarf þessara þriggja flokka. Og síðan kom Covid-faraldurinn og bjargaði ríkisstjórnarflokkunum úr í þeirri þröngu stöðu sem þeir voru komnir í svona um mitt kjörtímabilið. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að þetta sé að fljóta upp strax í umræðu þegar verið er að mæla fyrir málinu. En það er auðvitað kostur fyrir okkur sem erum hér í þinginu að þetta liggi fyrir frá fyrstu klukkustundum, að stjórnarflokkarnir séu fullkomlega ósammála um það hvernig skuli nálgast þetta risamál. Mér þykja það fréttir. Á sama tíma geta menn varla klárað setningu öðruvísi en að vísa í mikilvægi loftslagsmála. Bíddu, hver er meiningin á bak við þetta allt saman? Á sama tíma er ekki búið að leggja fram frumvarpið sem er líklegast til að auðvelda það að styrkja flutningskerfið með því að koma línulögnum áfram. Hann virðist því miður vera meira í orði en á borði, þessi áhugi ríkisstjórnarinnar á loftslagsmálum. Ef það væri raunin, ef hann væri raunverulegur, þá væru menn að leggja fram mál til að klára þau, koma rammanum áfram og leiða hann í jörðu, koma fram þessum vindmylluvangaveltum, (Forseti hringir.) línulagnamálinu og þar fram eftir götunum. En einhvern veginn (Forseti hringir.) virðist þetta aðallega ganga út á það núna að kaupa sér tíma.

(Forseti (BLG): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og ef notað er erlent orð þá er það þýtt yfir á íslensku en ekki öfugt. Merkileg framkvæmd í þetta skiptið.)