Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sannkölluð skemmtun hér að hlusta á stjórnarandstöðuþingmenn ræða sín á milli um afstöðu stjórnarflokkanna til einhverra mála og býsnast yfir því að það sé ekki búið að móta þetta og njörva alveg niður því að oftast heyrist nú úr þessum stól kvartað yfir því að Alþingi sé bara einhvers konar stimpilpúði og sé bara ætlað að stimpla stjórnarmálin. Hér kemur fram þingsályktunartillaga um risamál til framtíðar, ramminn sem staðið hefur fastur í þinginu árum saman, því miður, eins og farið hefur yfir, og opnað á þann möguleika að þingið, löggjafarvaldið sjálft, fái eitthvert svigrúm til að vinna málið og mögulega breyta þessari þingsályktunartillögu sem hér er. Þingmenn býsnast yfir þessu og segja þetta hið versta mál. En ég fagna því bara ef við tökum lýðræðislega umræðu um það hvernig ramminn á að líta út. Nú finnst mér eins og þingmenn Miðflokksins hafi verið svolítið duglegir að tala um embættismannaveldið, að stjórnmálamenn séu farnir að úthýsa valdi til embættismanna. Þetta er tillaga eins og hún kom fram frá verkefnisstjórn og eins og farið hefur verið yfir í ræðum hefur ráðherra eftir ráðherra lagt tillöguna fram nákvæmlega þannig. Það er ástæða fyrir því og ég hygg að hv. þingmaður þekki mjög vel það flækjustig sem fælist í því ef ráðherra færi að krukka í tillögur verkefnisstjórnarinnar.

Ég vil því beina þessari spurningu til hv. þingmanns: Telur hv. þingmaður að það eigi að fara í einu og öllu eftir tillögu verkefnisstjórnarinnar núna og í framtíðinni eða telur hv. þingmaður að það sé eðlilegt að kjörnir þingmenn, stjórnmálamenn, kunni að hafa einhverja skoðun á því og geti þá gert breytingar? Og ef svo er, hvort er eðlilegra að það sé af hálfu hæstv. ráðherra eða 63 þingmanna sem kjörnir hingað inn?