Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:57]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum skýr svör. Það liggur sem sagt fyrir að þessi þingsályktunartillaga sem við erum hér að ræða var afgreidd með almennum fyrirvara úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, með almennum fyrirvara úr þingflokki Framsóknarflokksins og með fyrirvara einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á tillögunni. Þetta er stjórnarmál. Gott og vel. Það verður áhugavert að fjalla um þetta í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. En það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að til grundvallar mati einstakra þingmanna á kostunum kunna að liggja önnur sjónarmið en eru í þingsályktunartillögunni. En hún byggir á ákveðinni aðferðafræði sem við komum okkur saman um. Það er líka rétt að nýjar upplýsingar kunna að hafa komið fram á síðastliðnum sex árum en þess vegna er enn furðulegra að tillagan sé lögð fram (Forseti hringir.) óbreytt og ekki sé tekið tillit til þeirra nýju kosta og/eða sjónarmiða sem hafa breyst á síðastliðnum sex árum.